„Mistök”
Þá eru kosningar í nánd eina ferðina enn og frambjóðendur keppast við að lofa öllu fögru fyrir næsta kjörtímabil. Hin ýmsu mál eru fyrirferðamikil í kosningabaráttunni s.s. fjölskyldumál, skólamál, skipulagsmál og atvinnumál svo eitthvað sé nefnt en lítið sem ekkert virðist fara fyrir málefnum fatlaðra. Af hverju er það svo? Er það vegna þess að þessi hópur er svo „lítill” að ekki tekur að afla atkvæða út á þennan málaflokk? Er það vegna þess að fatlaðir og foreldrar fatlaðra barna hafa ekki orku í að koma sínum sjónarmiðum á framfæri? Eru fatlaðir ekki velkomnir í bæinn?
Okkar ágæti bæjarstjóri var spurður í kosningaviðtali um daginn hvort hann og hans menn hefðu ekki gert einhver mistök á yfirstandandi kjörtímabili. Jú, menn höfðu gert mistök sem þeir voru búnir að leiðrétta og var það í sambandi við niðurskurð á niðurgreiðslum til foreldra barna sem höfðu börn sín í vistun hjá dagmæðrum. Það muna flestir eftir mótmælum dagmæðra (fór reyndar minna fyrir mótmælum foreldra) fyrir utan bæjarskrifstofur á sínum tíma. Bæjarstjórinn fór þá fram fyrir skjöldu og dró þennan niðurskurð til baka. Færri vita hins vegar að á sama tíma var svipuðum niðurskurði beitt á fatlaða.
Foreldrar fatlaðra barna frá 6 ára aldri eiga rétt á að sækja um liðveislu til handa barni sínu. Fyrir niðurskurð átti hvert barn rétt á 20 tímum á mánuði ásamt einhverjum aksturspeningi sem fór í að ferðast með þann fatlaða. Það þarf vart að taka það fram að þessi aðstoð létti töluvert á heimili fatlaða barnsins og þá gafst e.t.v. tími til að sinna systkinum eða bara sjálfum sér á meðan barnið var í öruggum höndum. Eftir niðurskurð fóru þessir tímar niður í 12 tíma á mánuði og aksturspeningarnir fóru úr 180 km aðstoð niður í 80 km. Þarna voru spennandi Reykjavíkurferðir úr myndinni og miðað við þessa 12 tíma þá var fátt annað að gera en að halda sig innan marka bæjarfélagsins. Hvað átti að gera á þessum 12 tímum? Ég veit ekki hvaða hugmyndir meirihluti bæjarstjórnar hafði með þessum niðurskurði en niðurskurðurinn var greinilega ekki mistök eins og greiðslurnar til foreldra barna hjá dagmæðrum.
Mín ósk er sú að næsta bæjarstjórn sjái sóma sinn í að gera betur við fatlaða og fjölskyldur þeirra og leiðrétti þau mistök sem voru gerð á seinasta kjörtímabili.
Fyrir hönd foreldrafélags Ragnarssels
Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir