Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Minningarorð: Guðni Ingimundarson
Laugardagur 12. janúar 2019 kl. 13:58

Minningarorð: Guðni Ingimundarson

Hver minning dýrmæt perla, 
að liðnum lífsins degi, 
hin ljúfu og góðu kynni 
af alhug þakka hér. 
Þinn kærleikur í verki 
er gjöf sem gleymist eigi 
og gæfa var það öllum
er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)
 
Elsku besti afi minn, ég kveð þig með miklum söknuði en með þakklæti í huga fyrir að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að eiga þig að í allan þennan tíma. En það er svo skrýtið og erfitt að vera ekki að fara á Borgartúnið, heimili ykkar ömmu, sem hefur verið svo stór partur í mínu lífi og ég á svo góðar minningar frá. Það má segja að ég hafi kynnst þér á nýjan hátt eftir að amma lést fyrir tveimur og hálfu ári því þegar ég kom á Borgartúnið á meðan amma var á lífi þá dróstu þig yfirleitt í hlé og fórst út í skúr, sérstaklega eftir að heyrninni fór að hraka því þér fannst þú ekki geta tekið þátt í umræðum og áttir erfitt með að fylgjast með ef fleiri en einn var að tala í einu. En eftir fráfall ömmu þá hélt ég áfram að koma á Borgartúnið og núna til að hitta þig og það voru góðar stundir. Núna fékk ég að heyra svo margar sögur og frásagnir um þitt líf og er með ólíkindum hvað þú varst minnugur í þeim frásögnum, öll smáatriði varstu með á hreinu, t.d. öll nöfn og þá yfirleitt fullt nafn á þeim einstaklingum sem komu við sögu, lýstir staðháttum í smáatriðum og ef þú varst að kaupa eitthvað eða greiða þá vissir þú upp á hár hvað það kostaði. En mest er ég snortin yfir því hvað þú hefur áorkað miklu í þínu lífi. Þú varst svo laghentur, útsjónarsamur og áræðinn og hef ég heyrt frá mörgum aðilum að ef eitthvað verkefni var mönnum ofviða og búið að reyna ýmislegt sem ekki gekk þá var ákveðið að ná í Guðna á Garðstöðum og undantekningarlaust leystir þú málið. Trukkurinn þinn var öflugt tæki en ég er nokkuð viss um það að með áræðni þinni og útsjónarsemi þá varð hann ennþá öflugri. Afi kom víða við og reddaði mörgum, var oft fengin í hin ótrúlegustu verkefni og fyrir mér þá var hann klárlega mesti töffarinn í bænum. Hann var mjög nýtinn og hirti ýmislegt sem átti að henda m.a. í þeirri vissu að einhver gæti þurft að nota það og kom það oft upp að menn komu í skúrinn til hans til að athuga hvort hann gæti mögulega átt einhvern hlut sem ekki var hægt að fá og viti menn, afi fann það oftast í skúrnum sínum sem hann undi sér svo vel í. Eitt af hans stóru afrekum á seinni árum eru vafalaust gömlu báta-, ljósa- og bílvélarnar sem hann gerði upp og gerði nánast allar gangfærar, yfir hundrað talsins og er þetta safn einstakt á landsvísu og vona ég svo sannarlega að bæjarfélagið muni varðveita þær og sýni þeim sóma um ókomna tíð þar sem hann gaf þær allar til Byggðasafnsins á Garðskaga. 
 
Elsku afi minn, þú varst alveg einstakur og svo klár en samt svo hógvær. Síðustu árin þá var heyrnin og sjónin ekki góð og það að þú hafir ennþá búið á Borgartúninu og það einn eftir að amma dó sýndi dugnað þinn og æðruleysi. Þú gast ekki lesið blöð né horft á sjónvarp og náðir með herkjum að hlusta á útvarp með því að hækka í botn og nota heyrnartól og var það nóg til þess að þú gætir fylgst með því sem var að gerast. Þitt sjónvarp var í minningunum sem þú dróst fram í huganum og við fengum blessunarlega að heyra. Aldrei kvartaðir þú og þú vildir ekki að við hefðum neitt fyrir þér né það að vera að eyða of miklum tíma okkar í þig, vildir helst gera sjálfur það sem þurfti að gera og þú hafðir tök á að gera, alveg fram undir það síðasta. Afi sagði mér sögu af manni sem notaði setninguna „Allt í funkis hjá mér“ sem þýddi að allt væri í lagi hjá sér og þetta notuðum við svo oft og oftast þegar ég kvaddi hann spurði ég hvort ekki væri „allt í funkis“ hjá honum og alltaf hló hann við og kvað svo vera. Ég vona að þú sért núna í sumarlandinu góða með ömmu og litla kút þér við hlið og að allt sé í funkis. Ég heyri það að margir minnast þín af mikilli virðingu og væntumþykju og er ég afar stolt af því að hafa átt þig fyrir afa. 
 
Þótt döpur sé nú sálin,
þó mörg hér renni tárin,
mikla hlýju enn ég finn
þú verður alltaf afi minn.
(Höf. ók.)
 
Ég á eftir að sakna þín mikið. Hjartans þakkir fyrir allt elsku besti afi minn. Minning þín er ljós í lífi okkar. Hvíldu í friði.
 
Þín Ágústa Ásgeirsdóttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024