Minning Benedikts Jónssonar
Góður vinur minn Benedikt Jónsson, „Benni í Garðshorni” og „Benni í milljón” lést að kvöldi 6. febrúar saddur lífdaga. Við áttum samstarf á ýmsum sviðum. Ég er nokkuð yngri en Benni var. Ég man fyrst eftir honum við að ýta Lúðunni á flot en það var trillubátur pabba hans. Leiðir okkar lágu fyrst saman í stjórn Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur. Ragnar Guðlaugsson verkalýðsleiðtogi í áratugi hér í Keflavík reyndi að halda félögum saman þó að tilburðir væru til að skipta upp í starfsgreinar. Benni var formaður vélstjóradeildar, hann hafði lokið því sem þá kallaðist mótoristanámskei ásamt svo nefndu pungaprófi sem voru skipstjórnarréttindi á bátum allt að 75 tonnum. Þetta voru helstu menntavegir ungra manna hér í þá tíð. Því námi lauk hann ungur og valdist til forystu þeirra sem þau réttindi höfðu. Ég var aftur formaður sjómannadeildar þannig vorum við báðir sjálfkjörnir í stjórn Verkalýsfélagsins og þar áttum við náið og gott samstarf. Næst lágu leiðir okkar saman í Hraðfrystihúsi Keflavíkur, ég var í stjórn Hraðfrystihúsins þegar kaupfélagið yfirtók rekstur þess og átti góðan þátt í því að velja Benna til þess að taka að sér forstjórastarfið. Benni hafði áður verið vélstjóri í Hraðfrystihúsi Keflavíkur hf. og þekkti því vel til vinnslu í frystihúsum, í þá tíð var það talið atriði að menn kynnu til almennra verka. Því starfi gegndi Benni í áratugi við gott orðspor. Benni naut virðingar og trausts jafnt undirmanna sem og annara. HK var í um árabil eitt stærsta atvinnufyrirtæki hér um slóðir. Benni kom víða við, hann var um árabil í stjórn Rafveitu Keflavíkur sem var framsýnt og gott fyrirtæki t.d. var það meðal þeirra fyrstu sem lagði raflínur í jörðu ekki síst fyrir hans áhrif. Benni var einn af stofnfélögum Lionsklúbbs Keflavíkur sem mörg góð málefni hefur stutt hér í bæ. Lengst þó áttum við Benni samstarf í Olíusamlagi Keflavíkur þar vorum við saman í stjórn í áratugi. Að lokum skilaði Olíusamlagið félögum sínum meiri og betri arði en dæmi eru til um svo kölluð samvinnufélög. Benni var áhrifamaður í samtökum útgerðamanna og fiskverkanda meðal annars sat hann í stjórnum LÍÚ, HS og SÍF, og síðar í sjávarafurðardeild SÍS sem hann lenti í óumbeðið. Um skeið var hann í forystu skreiðasamlagsins og þar tók ég við af honum í góðri sátt. Ég gæti skrifað langt mál um Benna vin minn en þar sem ég er vanbúinn til mikilla skrifta þá ætla ég að láta þetta nægja. Væntarlega verður hans minnst í lengra máli af öðrum. Eitt er víst að Benni var einn þeirra manna sem átti góðan þátt í að byggja þetta bæjarfélag upp. Ég naut þess að vera vinur Benna og Margrétar konu hans og ekki síður Benna og Mæju sem var hans verndarengill til hinsta dags. Ég þakka ykkur öllum, lifið heil.
Ólafur Björnsson