Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Milljarður í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ?
Fimmtudagur 27. apríl 2023 kl. 06:32

Milljarður í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ?

Reykjanesbær hefur kynnt áform um að verja fimm milljörðum króna í uppbyggingu íþróttamannvirkja á næstu sjö árum. Við fyrstu sýn virðast þetta vera skynsamlegar tillögur sem gerir ráð fyrir uppbyggingu mannvirkja sem verða samnýtt af íþróttafélögum sveitarfélagsins og byggir á framtíðarsýn um íþróttastarf í samfélaginu. Íbúar í Reykjanesbæ eru rétt rúmlega tuttugu þúsund og árlegar tekjur sveitarfélagsins á árinu 2021 voru rétt tæplega 27 milljarðar króna.

Við hlið Reykjanesbæjar stendur Suðurnesjabær með sína rétt tæplega fjögur þúsund íbúa og árlegar tekur upp á næstum fimm milljarða króna. Með einföldum hlutfallsreikningi mætti því gera ráð fyrir að álíka sjö ára uppbyggingaráætlun íþróttamannvirkja í Sandgerði og Garði gæti hljóðað upp á einn milljarð króna. Í Suðurnesjabæ hefur hins vegar verið nánast botnfrosið í íþróttatengdum framkvæmdum allt frá stofnun og það styttist í að sveitarfélagið eigi fimm ára afmæli. Það eru allir aðilar sem bera ábyrgð á þessari grafalvarlegu kyrrstöðu. Gömlu knattspyrnufélögin tvö, Reynir og Víðir, hafa verið föst í störukeppni um staðsetningu á gervigrasvelli og sveitarfélagið hefur ekki haft kjarkinn til að taka af skarið í málinu. Á meðan líða árin eitt af öðru og ekkert gerist, nema að aðstaða fyrir íþróttafólk í Suðurnesjabæ verður sífellt lakari í samanburði við það sem gerist hjá nágrannasveitarfélaginu og það kemur niður á gæðum íþróttastarfsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er ekki búið að ákveða hvert á að halda og hvernig á að komast þangað. Á meðan reikum við um stefnulaus. Slíkt hefur aldrei þótt vænlegt til árangurs, í íþróttum vitum við nefnilega að sigur verður ekki sóttur nema með góðu leikkerfi. Með þessari grein vil ég skora á bæjaryfirvöld að kalla fólk saman að borðinu til að móta stefnu í íþróttamálum, hvernig viljum við að íþróttastarf verði í Suðurnesjabæ árið 2030 og hvernig ætlum við að nýta þennan milljarð til að komast þangað. Hvernig viljum stuðla að aukinni fjölbreytni í íþróttastarfi, hvernig ætlum við að jafna stöðu kynjanna, hvernig ætlum við að auka þátttöku, hvernig tryggjum við jafnt aðgengi og hvernig náum við betri árangri. Við hjá Reyni og Víði þurfum líka að vera tilbúin að horfa í eigin barm, sætta okkur við þá staðreynd að þessi gömlu félög þurfa að aðlaga sig að nýjum tímum. Félögin voru nefnilega ekki búin til fyrir merkið og búningana, þau voru stofnuð fyrir samfélagið og fólkið sem þar býr.

Ólafur Þór Ólafsson,
formaður aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Reynis í Sandgerði.