Mikilvægi einkaframtaks í orkumálum
Aðkoma einkafyrirtækja að orkugeiranum á Íslandi er alls ekki nýtilkomin og hefur verið gríðarlega mikilvæg til að gera hann að því sem hann er í dag. Þeir sem láta eins og þetta sé nýtilkomið þekkja engan veginn orkugeirann. Einkareknar íslenskar verkfræðistofur og ráðgjafafyrirtæki með upp undir þúsund verkfræðinga og tæknimenntað fólk hafa veitt ráðgjöf um stórar sem smáar virkjanir, vatnsknúnar og gufuknúnar, gert mælingar og lagt á ráðin um virkjanasvæði, veitt ráð um lausnir og búnað. Túrbúnur og tæknibúnaður hefur verið þróaður af íslenskum og erlendum sérfræðingur og smíðaður af erlendum einkafyrirtækjum sem framleiða nánast allan tæknibúnað til virkjana.
Á að útrýma einkaframtakinu?
Þessi reynsla einkafyrirtækja er auðlind sem þarf að nýta og hægt er að nýta í auknum mæli. Þá þurfa þau að hafa tækifæri til að vaxa, ná sterkara samstarfi við erlenda aðila og selja þjónustu sína erlendis. Væru aðstæður Bjarkar tónlistarmanns aðrar ef henni hefði ekki tekist að selja tónlist sína erlendis? Við höfum fagnað með henni öllum sigrum á þeim vettvangi, jafnvel þótt hún velji að greiða skatta sína til annars lands.
Ég er mjög fylgjandi því að einkafyrirtæki fái tækifæri til að beita þekkingu sinni á orkusviðinu. Það er alvarlegt ef við höldum að útrýming einkaframtaks á orkusviði sé lausn á þeim vanda sem við eigum við að etja. Það er enginn að arðræna okkur. Einkafjármagn getur skapað grundvöll fyrir því að við njótum arðs af auðlindunum, fáum tekjur af auðlindagjaldi, sköpum ný störf og fáum góðar tekjur af þeim.
Einkafyrirtæki eiga að geta átt og rekið virkjanir til að skapa og selja vistvæna orku, rétt eins og þau selja ráðgjöf og búnað sem er forsenda orkusölunnar. Þannig leggja þau sjálf fram hið mikla fjármagn sem kostar að virkja og fá vonandi eðlilegan arð af því fjármagni. En til þess þurfa þau samning um að fá að nýta auðlindina sem við íbúarnir eigum. Það er ekki einfalt. Sterkar skorður eru á heimild til nýtignar auðlindarinnar. Skilyrði til virkjana eru sett af ríkisstofnuninni Orkustofnun sem ákveður hvað mikið má virkja (Svartsengi 550 GWst á árí ) og hvort eða hvað má virkja (stækkun Reykjaness eða nýjar virkjanir ) alveg án tillits til eignarhalds . Orkufyrirtæki sem leigir aðgang að auðlindum getur því ekki með nokkru móti nýtt hana eins og því sýnist. Um nýtinguna gilda strangar reglur og leyfi opinberra aðila, sbr. umhverfismat, skipulag og virkjanaleyfi.
Enn og aftur - hver á auðlindirnar?
Magma málið snýst ekki um eign á náttúruauðlindum. Náttúruauðlindir allra stærstu orkufyrirtækja á Íslandi eru nú þegar í eigu opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga, og samkvæmt gildandi lögum er ekki hægt að selja þær til einkaaðila. Þetta snýst um tækifærin til að nýta skynsamlega auðlindirnar sem við eigum, leggja áherslu á að viðhalda þeim, halda grunneign okkar á þeim og beita einkaframtaki og einkafjármagni til framkvæmdanna, í stað skattpeninga eða ábyrgða skattborgaranna. Auðlindirnar eru í okkar eigu. Íslendingar ættu því að snúa bökum saman og starfa með erlendum aðilum, skipta sköpum í alþjóðasamfélaginu með þróun og virkjun á umhverfisvænni orku þar sem skýr umhverfislöggjöf ver auðlindina of miklum ágangi.
Dæmið um HS
Hitaveita Suðurnesja er eitt af fjórum stóru orkufyrirtækjunum á Íslandi, reyndar með innan við 10% af markaðnum. HS var hlutafélagsvædd fyrir rúmum áratug síðan og ríkið ákvað að selja sig út úr HS fyrir 3 árum síðan. Þá hófst söluferli á hlutum í HS fyrirtækinu þar sem einnig sveitarfélög töldu eignarhlutum sínum í HS fyrirtækinu betur varið í annað en virkjanir og vildu selja sig frá HS. Sveitarfélögin höfðu ekkert bolmagn til að standa í þeim nauðsynlegu auknu fjárfestingum sem voru framundan til að virkja orku til atvinnusköpunar í landinu, enda ekki þeirra hlutverk. Þeim bauðst hins vegar að fá milljarða inn í lögbundin rekstrarverkefni sveitarfélaganna. Þannig seldu sveitarfélög eins og Hafnarfjörður, Garður, Sandgerði, Vestmannaeyjar, Grindavík, Kópavogur, Árborg og Reykjanesbær hluti sína í HS.
Margir andstæðingar sölu á sínum tíma hafa horft framhjá þessum staðreyndum um mikla fjárþörf orkufyrirtækja sem sveitarfélögum var ógjörningur að mæta, og álitamál hvort þeim var heimilt að binda þannig skattfé til ábyrgða á lánum. Einkaaðilar sýndu þá áhuga á að kaupa sig inn í virkjanahlutann, sem endaði með sölu til Geysis Green Energy og Orkuveitunnar. Síðan kom í ljós að Orkuveitan, sem opinbert fyrirtæki og í samkeppni við HS Orku, mátti ekki eiga allan sinn hlut í HS Orku og varð að selja. Hún seldi til Magma, sem einnig keypti hlut Geysis Green.
Reykjanesbær og Grindavík eiga auðlindirnar
Reykjanesbær hafði aldrei átt meirihluta í HS, ólíkt því sem haldið er fram á bloggsíðum óprúttinna andstæðinga álvers í Helguvík. Reykjanesbær var stærsti einstaki aðili að HS með 39,7 % eignarhlut. Við lagabreytingar á Alþingi 2008, með kröfu um uppskiptingu á orkufyrirtækjum í samkeppnis- og einkaleyfisstarfsemi, var einakaðilum frjálst að eiga meirihluta í virkjunum. Reykjanesbær gerði þá þríþætta samninga: 1. Seldi Geysi Green megin hlut sinn í virkjanafyrirtækinu, sem þá hafði fengið heitið HS Orka. 2. Keypti meirihluta (66,7%) í veitufyrirtækinu HS Veitum. 3. Tryggði að sveitarfélögin eignuðust auðlindina undir virkjununum, en hún var áður í eigu HS Orku. Nú eiga bæði Reykjanesbær og Grindavík land og auðlindir undir virkjunum og leigja afnot af þeim út gegn gjaldi. Það gjald er mun hærra en áður þekkist hér á landi og fyllilega sambærilegt við hliðstæða samninga víða erlendis .
Gegndarlaus áróður um að nú sé útlent „skúffufyrirtæki“ að hirða auðlindir okkar eru því ósannindi. Ég er mjög undrandi á að fjölmiðlar skuli ekki leiðrétta þetta meira en fram hefur komið. Í mínum huga snýst málið um að hæfur aðili með fjármagn vill fjárfesta í íslenskri þekkingu og nýta hana langt út fyrir landssteinana, nýta verkfræði- og virkjanaþekkingu okkar, efla stoðirnar í atvinnulífi okkar, með einkafjármagni.
Vinsamlegast hafið þetta í huga næst þegar þið lesið fréttir eða greinar frá þeim sem tala Reykjanesbæ og önnur sveitarfélög, virkjanir eða erlenda fjárfestingu í svaðið.
Árni Sigfússon,
bæjarstjóri Reykjanesbæ