Mikil fjölgun ferðamanna um Suðurnesin 2011
Hagstofa Íslands gaf út tölur fyrir ferðaþjónustuna í síðustu viku og var þar margt áhugavert sem ætti að gleðja Suðurnesjamenn. Samkvæmt Hagstofunni þá fjölgar seldum gistinóttum á hótelum og gistiheimilum á Suðurnesjunum um 27% milli áranna 2010 og 2011. Þetta er mesta aukning á landinu milli ára og kemur höfuðborgarsvæðið næst á eftir með 16% aukningu.
Sprenging í fjölgun gistirúma
Á sama tímabili fjölgar gistirúmum á hótelum og gistiheimilum á Suðurnesjum mikið á milli ára eða úr 628 í 873 sem er 39% aukning. Þessi aukning er meira í ætt við sprengingu en venjulega fjölgun milli ára. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu gistirúma milli ára þá batnar nýting gistirúma á Suðurnesjunum umtalsvert og fer úr 33,3% árið 2010 í 39,7% 2011 og hefur aðeins þrisvar verið betri frá 1998. Nýtingin nú er sú næstbesta á landinu og aðeins höfuðborgarsvæðið er með betri nýtingu eða 45% en önnur svæði talsvert langt á eftir. Á þessu ári (2012) fjölgar enn hótelum og gistiheimilum. Stórt hótel er nú að rísa við flugstöðina, fyrsta gistiheimilið að opna í Garðinum, Hótel Berg hefur opnað við Grófina í Reykjanesbæ, bændagisting að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd og fleira. Einnig er í skoðun ný hótelbygging við Bláa lónið sem gæti komist í gagnið innan 3ja ára.
Hundrað gíga garðinn
Markaðsstofa Suðurnesja fékk RG ráðgjöf til að telja ferðamenn sem fóru um Reykjanesið á síðasta ári. Þar kemur í ljós að um 110-120 þúsund ferðamenn fara um Hundrað gíga garðinn eða álíka margir og um Reykjanesfólkvang með Seltúni og Krýsuvík. Hundrað gíga garðurinn er ysti hluti Reykjanessins þar sem telst saman Gunnuhver, Valahnjúkur, Reykjanesviti og Brú milli heimsálfa. Hundrað gíga garðurinn býður upp á mikla möguleika og getur tekið á móti mun fleiri ferðamönnum. Aðgengið að Gunnuhver er orðið mjög gott og öruggt og sama má segja um hina staðina. Ferðamálasamtök Suðurnesja munu merkja nýja gönguleið fyrir sumarið sem nefnist 100 gíga leiðin. Áhugi er fyrir því að endurhlaða sundlaugina við Reykjanesvita og leggja að henni vatn. Nauðsynlegt er að setja upp þjónustuhús við Valahnjúk til að hafa eftirlit með svæðinu og bæta þjónustuna við ferðamenn sem fara um Reykjanesið og um leið að afla einhverra tekna fyrir svæðið. Þetta svæði hefur dregið að sér mikla athygli erlendis frá og verður haldin hér alþjóðleg ráðstefna um jarðfræðiferðamennsku (geotourism) á næsta ári þar sem jarðfræði þessa svæðið verður sérstaklega til umræðu.
Gott ferðasumar í vændum
Mikið og gott ferðasumar er í vændum á Íslandi og ljóst að Suðurnesin munu njóta þess ef marka má bókanir á hótelum og gistiheimilum fyrir sumarið. Upplýsingamiðstöðin og aðrir ferðaþjónustuaðilar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar gera ráð fyrir mikilli umferð um flugstöðina eða allt að 15000 manns á dag þegar mest verður. Við hjá Markaðsstofu Suðurnesja horfum því með bjartsýni fram á veginn. Stærsti atvinnuvegur svæðisins, ferðaþjónustan, er á blússandi siglingu.
Kristján Pálsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurnesja