Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mikið um að vera hjá Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ
Mánudagur 2. desember 2013 kl. 10:56

Mikið um að vera hjá Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ

Það er mikið um að vera hjá Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ um þessar mundir.  Herinn mun opna nýja Hertex verslun með notuð föt á Hafnargötu 18, mánudaginn 2. desember.  Verslunin er rekin með það að markmiði að styrkja það starf sem Hjálpræðisherinn er með hér í bænum.  Tekið er á móti fötum í gáma bæði á Vallargötu 18 (gamla Grágásarhúsinu) og á Ásbrú, Flugvallarbraut 730.

Desember mánuður er annasamur mánuður hjá Hjálpræðishernum.  Þá er settur út jólapotturinn þar sem safnað er fyrir velferðarstarfinu sem rekið er árið um kring.  Að þessu sinni verður herinn mest sýnilegur við Nettó og Bónus en einnig verður jólapottur við verslunina að Hafnargötu.

Á aðfangadag verða eins og undanfarin jól haldin vinajól á Hernum.  Hátíðin er fyrir þá sem af einhverjum orsökum ekki treysta sér til að halda jólin sín einir.  Skráning er hafin á [email protected] eða í síma 6943146.

Hjálpræðisherinn mun í samstarfi við kirkjuna deila út jólagjöfum til þeirra sem þess þurfa fyrir þessi jól.  Þeir sem vilja koma pökkum til okkar geta fengið upplýsingar í ofangreindu netfangi eða síma.  Gott væri að gjafir hefðu borist fyrir 10. desember.

Auk þessa sem sagt hefur verið frá verða aðventustundir að Flugvallarbraut 730 alla sunnudaga í aðventu kl. 12.30 með heitri máltíð að henni lokinni og laugardaginn 14. desember kl. 16 verða jólatónleikar m.a. með Gospelkrökkum undir stjórn Bríetar Sunnu.  Þangað eru allir velkomnir.

Hjálpræðisherinn vill þakka bæjarbúum fyrir allan þann stuðning og velvild sem veitt hefur verið á undanförnum árum.

Við biðjum ykkur Guðs blessunar með ósk um yndislega jólahátíð.

Elin Kyseth, Ingvi Skjaldarson og Hjördís Kristinsdóttir
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024