Menntun fyrir framtíðarstörf
Eitt brýnasta verkefni stjórnmálamanna um þessar mundir er að sjá til þess að allir hafi atvinnu. Eins og staðan er núna blasir við að mörg þúsund manns verði atvinnulausir fram eftir þessu ári og jafnvel lengur. Það má ekki láta þjóðina festast í gildru atvinnuleysis og því er nauðsynlegt að bregðast við hratt og skynsamlega. Að öllum líkindum verður ekki hægt að tryggja öllum sömu eða samskonar störf og þeir höfðu áður. Fjármálageirinn mun t.d. ekki þurfa sama mannafla og áður og hið sama gildir um byggingariðnaðinn og fleiri greinar. Við stöndum frammi því fyrir því verkefni að skapa ný störf – jafnvel störf sem eru ekki til hér á landi í dag.
Á þessum tímum, þegar þjóðin stendur á krossgötum, verðum við að ákveða hvernig við viljum sjá samfélag okkar þróast, bæði á einstaka svæðum og á landinu í heild. Suðurkjördæmi er víðfemt og býður upp á marga möguleika í að byggja upp ný atvinnutækifæri. Sjávarútvegur og landbúnaður munu halda áfram að skipa stóran sess í atvinnulífi kjördæmisins og eflaust eru fjölmörg sóknarfæri til að þróa þær greinar með ýmsum hætti og skapa þar með ný störf. Ferðaþjónusta hefur ótal myndir og varla takmörk fyrir því hvað hægt er að þróa undir hatti hennar enda þyrstir ferðalanga í margskonar afþreyingu og menningu. Jarðhitinn er og verður uppspretta margra nýjunga hvort heldur á sviði þjónustu eða iðnaðar. Ýmis konar rannsóknir og þróunarstarf hefur verið að vaxa og dafna og gaman er að fylgjast með starfsemi Keilis, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Það eru því mörg sóknarfæri framundan en þau eiga flest sammerkt að byggjast á rannsóknum, þróunarstarfi og menntuðu starfsfólki.
Samfélagsbreytingarnar eru samtvinnaðar atvinnuþróuninni. Það er ljóst að það þarf að búa fólk undir breytingar á vinnumarkaðnum. Við verðum að nýta tímann vel og skipuleggja nám fyrir fólk á öllum aldri til að takast á við breytingarnar. Nú þegar er boðið upp á ýmiskonar námskeið og þjálfun fyrir þá sem hafa misst vinnuna en auk þess verður að skipuleggja námskosti í samhengi við framtíðarsýn svæðisins í atvinnumálum og leggja þannig grunn að því að íbúar verði virkir þátttakendur í uppbyggingu þess. Þannig er best hægt að tryggja að þeir hafi atvinnu til framtíðar þótt störfin verði önnur en í dag.
Það er kallað eftir nýju fólki til forystu og starfa á Alþingi og mörg krefjandi verkefni bíða Suðurkjördæmis á komandi árum. Því vil ég leggja fram þekkingu mína og reynslu til þess að takast á við þau og hef ákveðið að bjóða mig fram í 1. – 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar, sem fram fer 5. – 7. mars nk.
Anna Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur starfar sem forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel