Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 29. apríl 2002 kl. 10:21

Menntun, atvinna, umhverfi: Umhverfisvænn Orkugarður!

Með réttum áherslum og vinnubrögðum er Reykjanesbær að mínu mati það bæjarfélag á Íslandi sem á einna mesta möguleika til að blómstra á komandi árum. Þetta tengist möguleikum í menntun, atvinnu og umhverfi. Þetta segir Árni Sigfússon í grein til Víkurfrétta.Í menntamálum hefur verið staðið vel að uppbyggingu leikskóla og grunnskóla. Það sem er enn aðeins draumsýn í flestum sveitarfélögum s.s. einsetning, heitur matur í hádegi fyrir alla nemendur, tónlistarskóli samþættur við grunnskólann, og öflugar verkgreinastofur, eru staðreyndir í Reykjanesbæ. Nú er verkefni okkar að vinna áfram að því að gera menntunina þá bestu sem völ er á. Fjölbrautaskólinn mun stækka á næstu árum og aðstaða nemenda því öll batna til muna. Auk fjarnáms og símenntunar eru tækifæri í styrkingu iðnmenntunar og menntunar á háskólastigi, sem síðar verður vikið að.

Í atvinnumálum hefur verið lögð áhersla á að byggja sterkan grunn, t.d. með miklum hafnarmannvirkjum. Helguvík væri ekki það aðdráttarafl fyrir erlend fyrirtæki, sem hún reynist vera, ef þar hefðu ekki verið menn í bæjarstjórn og hafnarstjórn sem börðust fyrir hugmyndinni. Reykjanesið er helsta jarðhitasvæði landsins og virkjun orkunnar gefur okkur gríðarlega möguleika sem tengjast bæði góðri atvinnu og menntun. Alþjóðaflugvöllur, þjónusta við Varnarliðið og síðar innanlandsflugvöllur munu fjölga atvinnutækifærum í framtíðinni. Fullvinnsla sjávarafurða og skjótir flutningar til erlendra markaða munu einnig gefa okkur aukin tækifæri í framtíðinni. Reykjanesið og umhverfi þess á mikla útivistar- og ferðamöguleika sem við getum nýtt í ferðaþjónustu.
Þessar sterku stoðir skapa af sér mikla möguleika á annarri atvinnustarfsemi, fjölbreytni í menningu og þjónustu sem fylgir öflugu sveitarfélagi.

Umhverfismál eiga stöðugt stærri sess í huga okkar íbúanna. Við viljum hreint, ómengað og fallegt umhverfi. Ýmsum iðnaði og reyndar mörgum athöfnum okkar mannfólksins fylgir óhjákvæmilega hætta á margvíslegri mengun. Tæknin hefur gert okkur kleift að lágmarka hana eða útrýma. Við eigum að sjálfsögðu að krefjast allrar nýjustu tækni til að skapa okkur hreint og ómengað umhverfi.

Umhverfisvæni Orkugarðurinn!
Eitt verkefni öðru fremur, tel ég að sameini þá þrjá hornsteina sem góð menntun, atvinna og umhverfi eru. Það mun skapa hundruð starfa sem krefjast háskóla- og iðnmenntunar.
Við sjálfstæðismenn viljum að “umhverfisvænn Orkugarður” rísi í landi Reykjanesbæjar. Orkugarðurinn er stórt landsvæði sem helgað er orku, virkjun hennar, fyrirtækjum sem nýta orkuna og menntastofnunum sem byggja á rannsóknum í jarðvísindum. Hvar annars staðar en á svæðinu þar sem jarðhitinn er virkjaður, eiga rannsóknarstofnanir á þessu sviði að vera?
Slíkar vísindarannsóknir og skólar þeim tengdar þurfa greiðan aðgang að alþjóðaflugvelli og þjónustustofnunum. Mér er einnig kunnugt um að alþjóðafyrirtæki vilja gjarnan tengja nafn sitt við slíka hugmynd.
Staðsetning slíks svæðis frá Svartsengi og Bláa lóninu að Vogastapa og þaðan í átt til Innri Njarðvíkur gæti verið kjörin aðstaða fyrir Orkugarðinn. Þannig gætu fleiri sveitarfélög á svæðinu átt þátt í garðinum. Helstu byggingar á svæðinu yrðu þar sem víðsýnast er, með sjávar- og landsýn, norðan Reykjanesbrautar og vestan við Vogastapann. Með tvöfaldri Reykjanesbraut er gert ráð fyrir yfirbyggðum gatnamótum á móts við Grindavíkurafleggjarann og þaðan geta því legið tengingar beggja megin Reykjanesbrautar. Svæðið sjálft teygir sig suður yfir í Svartsengi og til vesturs í átt til Innri Njarðvíkur.
Þegar landsmenn koma akandi í átt til alþjóðaflugvallar og Reykjanesbæjar, verður fyrsta sýn þeirra á Reykjanesbæ, hinn umhverfisvæni Orkugarður.
Orkugarðurinn yrði falleg blanda bygginga sem hýsa fyrirtæki, háskóladeildir og rannsóknarstofur alþjóðafyrirtækja. Þar yrðu virkjunarsvæði, Bláa lónið og fleiri náttúrugarðar. Í Orkugarðinum verður umhverfi sem gefur til kynna að hér sýnir umhverfisvæn orka sína miklu möguleika.

Til að Orkugarðurinn verði að veruleika þarf samstarf heimamanna, háskólastofnana, ríkisstjórnar og fyrirtækja. Þetta er hægt ef skynsemi og framkvæmdakraftur fá að ráða för. Hitaveita Suðurnesja er kjarninn. Hann er því þegar kominn. Sú hugmynd að byggja upp Orkugarð við aðkomuna í Reykjanesbæ, krefst vandaðs undirbúnings. Orkugarðurinn er spennandi framtíðarverkefni og sannarlega framkvæmanlegt, Reykjanesi og Reykjanesbæ til heilla.


Árni Sigfússon
Leiðtogi D-lista sjálfstæðismanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024