Menntastefna Reykjanesbæjar
Undanfarið hefur verið unnið að nýrri og metnaðarfullri menntastefnu fyrir Reykjanesbæ og tekur hún til allra skólastiga bæjarins.
Leikskólinn er fyrsta skólastig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar og afar mikilvægur tími í lífi hvers barns. Námsframvinda og velferð barna byggir á því að foreldrar styðji við skólagöngu barna sinna og að virðing ríki á milli skólanna og samfélagsins í heild. Menntun er mikilvægur og stór þáttur þjóðfélagsins, þar sem við berum sameiginlega ábyrgð. Leikskólastigið á að vera lýðræðislegur vettvangur og samfélag þar sem starfsfólk, foreldrar og börn eru virkir þátttakendur sem hafa áhrif á ákvarðanir um málefni leikskólans. Starfandi eru tíu leikskólar í Reykjanesbæ. Þeir bjóða upp á fjölbreytt og skemmtilegt leik- og námsumhverfi, en starfa eftir mismunandi stefnum og áherslum.
Íbúaþing um nýja menntastefnu Reykjanesbæjar verður haldið þriðjudaginn 8. mars næstkomandi frá klukkan 17.00 til 19.00. Þar geta allir íbúar Reykjanesbæjar verið þátttakendur í að móta nýju menntastefnuna, komið skoðunum sínum á framfæri á uppbyggjandi hátt.
Við hvetjum íbúa bæjarins til að mæta á þingið og sýna þannig í verki virkt lýðræði. Komum og látum skoðanir okkar í ljós í þessu máli, sem skiptir okkur öll svo miklu og stuðlum þannig að sem mestum gæðum í námi barnanna okkar.
Rannveig Arnarsdóttir, deildarstjóri
Inga María Ingvarsdóttir, leikskólastjóri
Kristín Helgadóttir, leikskólafulltrúi