Menningardagar í Njarðvíkurprestakalli
„Ég varð glaður er menn sögðu við mig: Göngum í hús Drottins.“ Orð í Davíðssálmi 122 eiga þau vel við þann fögnuð og gleði sem munu standa öllum til boða að kostnaðarlausu í Njarðvíkurprestakalli dagana 18. október til og með 1. nóvember nk. Þessa daga munu menningardagar í kirkjum prestakallsins verða haldnir, en kirkjurnar eru Ytri-Njarðvíkurkirkja, Njarðvíkurkirkja í Innri-Njarðvík og Kirkjuvogskirkja í Höfnum.
Dagskráin verður með fjölbreyttu ívafi, því hvað er yndislegra en að geta leitað í kirkjuna og hlýtt þar á Guðs orð, fallega tónlist, séð myndlist o.fl.
Leikskólabörn á svæðinu munu vera með sýningu í kirkjunum, þar sem gestum er boðið skoða verk barnanna meðan menningardagarnir standa yfir. Rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson mun halda fyrirlestur um „Ástina á lífinu“ sem hann hefur verið að halda í skólum landsins að undanförnu. Einnig munu þrír þekktir rithöfundar lesa upp úr nýjustu verkum sínum. Helga Ingimundardóttir leiðsögumaður segir frá ýmsu markverðu í Innri-Njarðvík og einnig verður kirkjubíó þar sem gestum gefst kostur á að horfa á mynd og ræða um hana út frá trúarlegri sýn. Boðið verður uppá Kirkjubrall eða Messy Church, en það er form þar sem fólk á öllum aldri vinnur í sameiningu ýmis verkefni og þrautir.
Nokkrir tónleikar verða haldnir á menningardögum. Á vaðið ríður söngvarinn Herbert Guðmundsson sem mun halda tónleika í safnaðarheimilinu í Innri- Njarðvík, þar sem hann mun flytja sín þekktustu lög ásamt trúarlegri tónlist sem hann hefur einbeitt sér að síðustu árin. Sönghópinn Vox Felix mun koma fram við helgistund og Gospelkór Árbæjar-og Bústaðarkirkju mun halda stóra tónleika á lokadegi menningardaga.
Látum gleðina fylla hjörtu okkar og komum fagnandi í kirkjurnar á menningardögum og tökum saman þátt í starfi kirkjunnar. Allir hjartanlega velkomnir.
Hægt er að nálgast dagskrá menningardaganna á vef kirknanna njardvikurkirkjur.is og einnig á samfélagsmiðlinum Facebook.
Jakob Sigurðsson , sóknarnefndarformaður Njarðvíkursókn.
Kristján Friðjónsson, sóknarnefndarformaður Ytri-Njarðvíkursókn.
Árni Hinrik Hjartarson, sóknarnefndarformaður Kirkjuvogssóknar.