Samkaup hluthafafundur
Samkaup hluthafafundur

Aðsent

Menningar- og sögutengd gönguferð í boði Grindavíkurbæjar og Bláa Lónsins
Þriðjudagur 3. apríl 2012 kl. 15:39

Menningar- og sögutengd gönguferð í boði Grindavíkurbæjar og Bláa Lónsins




Grindavíkurbær og Bláa Lónið munu bjóða upp á menningar- og sögutengda gönguferð fyrir alla fjölskylduna mánudaginn 9. apríl, á annan í páskum. Gangan hefst kl. 11.00 á bílastæði Bláa Lónsins.
Guðbjörg Ásgeirsdóttir frá Eldfjallaferðum í Grindavík verður leiðsögumaður í ferðinni. Áætlað er að gangan sem er 7 km taki 2-3 klukkustundir.

Í ferðinni sameinast fræðsla um náttúru og sögu leiðarinnar og góð hreyfing í einstöku umhverfi. Gengið verður um mosagróið Illahraun en hraunið sem rann árið 1226 dregur nafn sitt af því hversu gljúpt það er og erfitt yfirferðar. Þá verður gengið framhjá Rauðhól, farið með Skipstíg sem er forn þjóðleið og haldið austur með norðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli.

Skipstígur er forn þjóðleið milli Grindavíkur og Innri-Njarðvíkur. Þar er hægt að sjá þegar nútíminn mætir fortíð með nýrri vegagerð fyrir bifreiðar og fjölgun hestvagna í kringum árið 1900. Þrjú hundruð metra kafli leiðarinnar ber merki um fagurt verklag þess tíma. Margir hellar og skútar eru á þessari leið, þar á meðal Dýrfinnuhellir. Sagt er að Dýrfinna hafi falið sig þar með börn sín að ótta við Tyrki. Baðsvellir eru í neðanverðu fjallinu Þorbirni og tengjast þeir sögu um þjófagengi sem þar baðaði sig og hélt til í Þjófagjá í fjallinu.

Að lokum verður gengið um jarðauðlindagarðinn í Svartsengi að athafnasvæði HS Orku hf. Gangan endar í Bláa Lóninu.
Góður skófatnaður er æskilegur og gott að taka með sér smá nesti. Þátttakendur eru á eigin ábyrgð. Möguleiki er að fara rúmlega hálfan hring og fá akstur til baka. Ekkert þátttökugjald er í gönguna.



Mynd Ellert Grétarsson

Bílakjarninn
Bílakjarninn