Menn belgjast út af brauði einu saman
Einhverju sinni þegar ég var að hlusta á útvarp, fyrir mörgum árum, var kennari í handmennt í viðtali sem hafði aðrar hugmyndir um nám en algengt var á þeim tíma. Hann var spurður hverju hann myndi breyta ef hann fengi alræðisvald í skólamálum. Eftirfarandi er ekki orðrétt, en sett fram eins vel og ég man það og sá fyrirvari hafður á að einhvers staðar hafi fennt í minningasporin. Svarið var á þá leið að hann myndi fella alla þá nemendur sem fengju 8 eða meira af 10 mögulegum í einkunn.
Þáttagerðarmaðurinn varð hissa og óskaði nánari skýringa.
“Þeir sem fá háa einkunn í samanlögðu ná henni oft án mikilla erfiðleika og er hættara við að missa áhugann á náminu, en aðrir nemendur. Út úr slíku fólki, kemur oft ekkert sem nýtist viðkomandi listgrein, það flosnar upp frá námi og fer á aðrar brautir og oftast í eitthvað þyngra. Uppáhalds nemendur mínir, get ég sagt þér, eru þeir sem berjast við bækurnar daglangt án teljandi árangurs, seiglan og viljinn það eina sem þeir hafa í farteskinu. Og tölum þá ekki um þá einstæðu nemendur sem geta lesið bók spjaldanna á milli og þekkja svo ekki einu sinni myndirnar í henni þegar þeir skoða hana aftur. Þegar slíkur nemandi nær árangri er ég meira en ánægður, þá finn tilgang minn sem kennari!”
Þessi ágæti hugmyndasmiður var ekki búinn að skýra út sitt mál að fullu og hélt áfram.
“Það er miklu erfiðara fyrir nemanda að hækka sig úr 5 og upp í 6.5 heldur en er fyrir nemanda sem fékk 9 að halda áfram að fá 9 í einkunn. Sá fyrrnefndi, leggur á sig mikla vinnu, reynir að halda í það sem verið er að kenna, jafnhliða upprifjun en fær litla sem enga athygli eða ávöxt erfiði síns frá kennaranum, oftast nær, en sá síðarnefndi lifir eins og blóm í eggi og má helst ekki hósta í návist hans.”
Nálægt þessum punkti hætti ég því sem ég var að gera og settist á stól við hliðina á útvarpinu. Svona nokkuð hafði ég aldrei heyrt fyrr.
“Einkunnagjöf t.d. í listsköpun er rökvilla eins og hún er hugsuð í dag því þar er miðað við hæfileikann að öðlast færni á bókina og hafa minnisatriði á hreinu. Þessi lögmál námsins, þekkingarmælistikan, er síðan notuð af kennara og skólayfirvöldum til að hygla eða fella nemendur.”
“Hægðu á þér gæðingur,” varð mér að orði eins og ég væri þátttakandi í umræðunum. “Hvert stefnum við nú?”
“Ég myndi sérstaklega hafa áhuga á þeim nemendum,” bætti svo kennarinn við, “ sem rétt skriðu 5 í einkunn og myndi einbeita mér að því að kenna þeim eins vel og kostur væri, eins og ég hef áður tekið fram.”
Hér varð vandræðaleg þögn, framsetning málefnisins svo óvanaleg og framandi að bæði ég og þáttagerðarmaðurinn vorum orðlausir.
“Ef tekið væri dæmi af listamanni, listmálara, skiptu engu hversu fær hann væri ef afköst hans í listgreininni væru engin. Þarna liggur lykillinn að einkunnagjöfina, það á að gefa einkunnir í listum í samræmi við þörf einstaklingsins til að skapa. Aðeins þannig gerum við námsefninu og tilgangi menntunarinnar til hæfis.”
Umræðan hélt eitthvað áfram og sannfærði mig um að ekki væri nóg að verða mettur af veraldlegu vafstri, eiga nóg í sig og á, að belgja sig út af brauði einu saman, heldur þyrfti og að rækta andann og þetta æðra þarna uppi af og til.
“Ja, hérna, hérna,” varð mér að orði þegar ég reisti mig upp frá borðinu, hristi höfuðið og lækkaði í útvarpinu. “Öðruvísi mér áður brá!”
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ