Mengun á Nikkelsvæðinu
Á liðnum árum hefur svokallað Nikkelsvæði verið töluvert í umræðunni og telja margir það vænan kost sem næsta byggingarsvæði byggðarlagsins. Ólafur Björnsson skrifaði nýlega grein í Víkrfréttir sem bar titilinn „Nikkel svæðið er okkur til skammar!“. Þar benti hann á að miðað við hve langan tíma það tæki að fá Nikkel svæðið afhent væri tímabært að krefjast þess að Bandaríkjamenn myndu láta af hendi Patterson svæðið enda væri það ekki lengur í notkun af hálfu Varnarliðsins. Það má rétt vera að Patterson svæðið sé fýsilegt byggingarsvæði en ég vil láta þess getið að vatnsból sem þar er að finna eru í notkun hjá varnarliðinu.Fyrir liggja niðurstöður þriggja rannsókna er fjalla um mengun á Nikkelsvæðinu. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafði yfirumsjón með einni þessara rannsókna. Hlutverk þessarar greinar er að upplýsa bæjarbúa um eðli og umfang þeirrar mengunar sem fundin hefur verið á svæðinu.Samkvæmt þeim niðurstöðum sem fyrir liggja um Nikkelsvæðið er um olíumengaðan jarðveg að ræða. Olíumengunin á meðal annars rætur sínar að rekja til olíuslyss sem átti sér stað árið 1987. Á svæðinu er einnig að finna blý (Pb) og PCB mengaðan jarðveg. Hér fyrir neðan mun ég fjalla um þessa þrjá mengunarflokka hvern fyrir sig.Olíumengaðan jarðveg er tiltölulega einfalt að hreinsa og gera skaðlausan með lífrænu niðurbroti. Þess ber þó að geta að virkni örveruniðurbrots er háð samsetningu olíunnar, þung olíuefni eru lengur að brotna niður en þau sem léttari eru. Í stuttu máli má segja að hreinsun olíumengaðs jarðvegs sé viðráðanlegt viðfangsefni, þó vissulega sé umfangið á Nikkelsvæðinu töluvert. Hafi menn áhuga á að lesa sér til um örveruniðurbrot á olíu vil ég benda á rit sem ber titilinn „Meðferð á olíumenguðum jarðvegi“ og finna má á heimasíðu Hollustuverndar ríkisins, www.hollver.is.Blý er frumefni og brotnar ekki niður. Eituráhrif af blýi geta verið bæði geta bæði verið snöggvirk (acute) og langvinn (chronic). Auk þess að vera krabbameinsvaldur getur blý haft áhrif á miðtaugakerfið og ónæmiskerfið. Ein helsta uppspretta blýmengunar almennt mun vera notkun á blý-bensíni og er þá fyrst og fremst um loftmengun í borgum að ræða. Blýmengun á Nikkelsvæðinu má rekja til blýheldinnar málningar sem notuð var til þess að mála leiðslur og tanka. Blý-málning ver járn gegn tæringu og var mikið notuð á árum áður. Eðli málsins samkvæmt er blýmengun á Nikkelsvæðinu bundin við þau svæði þar sem tanka og leiðslur er að finna.Vart varð við PCB mengun við spennistöðvar á svæðinu. Það má telja líklegt að PCB mengunin sé staðbundin enda var PCB heldin olía aðallega notuð á spenna. PCB brotnar ekki niður í náttúrunni og er talið hættulegt umhverfinu. Helsta leið til inntöku efnisins mun vera að leggja sér menguð sjávarföng til munns. Einnig getur efnið komist í líkamann við húðsnertingu. Eituráhrif PCB á sjávardýr eru snöggvirk en áhrifin á spendýr eru fremur langvinn. Langvinn eituráhrif á spendýr hafa verið staðfest, þau eru m.a. lifrarskemmdir í mönnum og erfðagallar hjá nagdýrum. Í dag hefur innflutningur á PCB verið bannaður og gilda strangar reglur um förgun á efnum er innihalda PCB en þau eru flokkuð til spilliefna. Að hreinsa PCB mengaðan jarðveg er dýr iðja sem krefst sérhæfðs búnaðar. Vegna mikils kostnaðar við hreinsun á PCB menguðum jarðvegi er oft valin sú leið að urða hann á þar til gerðum urðunarstöðum. Það er rétt að geta þess að strangar kröfur eru gerðar til urðunarstaða sem urða spilliefni því tryggja þarf að mengun geti ekki borist þaðan, jafnvel ekki á löngum tíma.Umræðan um hvort þörf sé frekari rannsókna þarf að fara fram á faglegum grunni. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja mun fylgjast grannt með öllu sem viðkemur þessu máli. Fyrirbyggja þarf að heilsufari verðandi íbúa á Nickelsvæðinu verði stefnt í hættu. Ég vona að þú lesandi góður sért einhvers vísari um jarðvegsmengun á Nikkelsvæðinu eftir að hafa lesið þessa grein.Bergur Sigurðsson,mengunarvarnafulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja