Meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur hækkar laun sín
með stuðningi Samfylkingar
Meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur samþykkti á fundi sínum 27. nóvember með stuðningi fulltrúa S-listans hækkun launa sinna um tæp 30% en fulltrúi M-listans og U-listans kusu gegn hækkuninni. Þannig fara laun forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs miðað við fjóra fundi í mánuði í tæp 500 þús á mánuði. Vænta má að kjósendur hafi gert ráð fyrir því þegar þeir gengu til kosninga vorið 2018 að fjármunum bæjarins yrði forgangsraðað í samræmi við stefnuskrá flokkanna en ekki í eigin vasa. En hækkun þessi mun kosta bæjarfélagið þó nokkuð á annan tug milljóna á ári.
Þeim sem styðja þennan gjörning hefur verið tíðrætt um að bæjarfulltrúar hafi tekið á sig lækkun launa 2010 þegar sýna þurfti aðhald í rekstri sveitarfélagsins. Viljum við benda á að einungis tveir kjörnir fulltrúar voru þá í bæjarstjórn og tóku á sig þessa lækkun því er verið að bæta mönnum upp miska annarra að mestu. Laun bæjarfulltrúa eru bundin launavísitölu sem hefur hækkað um 86,55% á þessum tíma á meðan laun á hinum almenna vinnumarkaði hafa hækkað um 40 - 65%. Því hafa laun bæjarfulltrúa hækkað umtalsvert meira heldur en laun almennt.
Það einkenndi líka umræðuna að hækka þyrfti launin svo það fengist nú „almennilegt“ fólk í þessa vinnu þar sem það er mikið áhyggjuefni að stór hluti kjörinna fulltrúa gefur ekki kost á sér aftur eftir að hafa setið eitt kjörtímabil og að erfitt væri að fá fólk í þessa vinnu. Við kjörnir fulltrúar þurfum líka að hafa áhyggjur af öðrum starfsstéttum sem erfitt er að manna svo sem umönnun aldraðra, leikskólaliða, leikskólakennara, hjúkrunarfólk, skólaliða og kennara svo eitthvað sé nefnt. Hér myndi nú aldeilis ekki vanta fólk í þessi störf ef þau gætu nú bara ákvarðað launin sín sjálf.
Það er nákvæmlega það sem bæjarstjórn Grindavíkur gerði þegar hún hækkaði laun sín umtalsvert þrátt fyrir að búið væri að benda á að fyrir liggji þingsályktunartillaga frá samgöngu og sveitarstjórnarráðherra þar sem á að fara í vinnu tengda starfskjörum sveitarstjórnarmanna. Því ekki að bíða eftir að þeirri vinnu ljúki til að sjá hvort um raunverulegt misræmi er að ræða eður ei. Samkvæmt samantekt sem SSS gerði á þóknunum kjörinna fulltrúa 2018 þá voru fulltrúar Grindavíkurbæjar með í meðallagi góð laun.
Þetta var langt í frá fyrsta umræða sem fram fór um hækkun nefndarlauna og hefur bæjarfulltrúi Miðflokksins tapað röddu sinni í kappræðum um málefnið oftar en einu sinni. Bent á með vel rökstuddum hætti að þessar launahækkanir eru alls ekki tímabærar hvorki nú né seinna.
En það fór sem fór, meirihlutinn ræður og því var ekkert annað eftir að gera en að setja á þetta eftirfarandi bókun þannig að sjónarmið okkar verði þá að minnsta kosti skjalfest:
Bókun M-listans:
Miðflokkurinn hafnar með öllu þeirri miklu hækkun launa kjörinna fulltrúa sem lögð hefur verið hér fram og telur það alveg andsnúið lífskjarasamningum sem undirritaðir voru fyrir skemmstu þar sem talað er um hófsamar eða engar hækkanir. Laun bæjarfulltrúa hafa hækkað um 86,55% síðan 2010 vegna þess að laun þeirra eru tengd launavísitölu. Eðlilegt er að sú hækkun ein og sér verði látin nægja þar sem hún er langt umfram aðrar launahækkanir í landinu.
Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir
Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík