Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sunnudagur 17. nóvember 2002 kl. 22:13

Málefni heilsugæslunnar í okkar hendur!

Það sem brennur á fólki hér á Suðurnesjum er málefni heilsugæslunnar. Þegar Róm brann lék Neró keisari á fiðlu. Í heilbrigðisráðuneytinu er kannski ekki leikið á fiðlu, heldur fýkur í kviðlingum. Á meðan ríkir upplausn með uppsögnum lækna og óánægju. Grundvallaratriðin virka ekki. Fólk er farið að fara framhjá tryggingakerfinu og greiða sjálft fyrir þjónustuna, þeir sem efni hafa á því. Það ófermdarástand sem nú ríkir í málefnum heilsugæslunnar á Suðurnesjum er afleiðing stefnuleysis í heilbrigðismálum. Það þarf að stokka upp kerfið. Til þess þarf þverfaglegar aðgerðir og samhæfðar lausnir undir stjórn heimamanna, þar sem áhugasamtök og aðilar vinnumarkaðarins koma einnig að málinu.Frumheilsugæslan verður að vera virk. Sjúklingar verða að hafa aðgang að lækni, heilsugæslulækni, sem þeir þekkja og geta treyst. Þeir læknar sem nú eru farnir, eru farnir annað og það tekur mörg ár að byggja upp nýtt traust milli nýrra lækna og íbúanna. Frumheilsugæslan er anddyrið að skilvirku heilbrigðiskerfi. WHO, Alþjóðaheilbrigðistofnunin hefur komist að þessari niðurstöðu. Vinnulag heilsugæslulækna er mun ódýrari fyrsti kostur en sérfræðilæknisþjónusta. Öflug frumheilsugæsla er þess vegna skynsamleg.
Í Evrópu eru menn að glíma við svipaðan vanda í heilbrigðiskerfinu. Ný kostnaðarsöm meðferðartækni, auknar kröfur almennings og væntingar fólks eru til þess fallnar að auka á þrýsting um meiri þjónustu samtímis því sem opinber útgjöld eru undir aðhaldi. Þetta er spurning um forgangsröðun. Í Hollandi komust menn að því að rétt væri að efla frumheilsugæsluna. Þar töldu menn ekki þörf fyrir fleiri en einn húðsjúkdómalækni, svo dæmi sé tekið, á hverja 100 þús. íbúa. Í Reykjavík eru þeir a.m.k. 10 með sjálftökurétt í tryggingakerfið, sogrör í ríkiskassann, ef svo má segja. Auðvitað sjá allir að íslenska kerfið hefur bitnað á heilsugæslunni. Við erum að súpa seiðið af því og nú situr Jón Kristjánsson í súpunni og ræður ekki við nokkurn hlut.
Heilbrigðismál eru hluti af okkar samfélagsgerð, hluti af velferðarkerfinu í heild. Það þarf að ræða og ígrunda þörfina á að endurskipuleggja þetta kerfi í heildarsamhengi þess raunveruleika sem við lifum í en ekki sem þröngt afmarkað sérsvið öðru óviðkomandi.
Margir sem leita til sérfræðilækna í dag, kannski þrír af hverjum fjórum, þjást ekki af líkamlegum kvillum fyrst og fremst. Faraldsfræðikannanir benda á samhengi milli heilsufars og efnahags. Fyrir marga er oft of erfitt að vera til og vanheilsan stafar af geðrænum, tilfinningalegum eða félagslegum ástæðum. Sumir kalla þetta streitusjúkdóma sem gegnsýra þjóðfélagið. Hugtök eins og sjúkdómsvæðing ryðja sér til rúms eða „læknisfræðileg súrsun” þar sem fólk er vanið undir heilbrigðiskerfið og gert að leiksoppum gróðaafla og lyfjaiðnaðarins sem er að kollkeyra kerfinu. Það þarf að sigrast á þessari þróun og tryggja raunverulega ávinninga heilbrigðis og lífsgæða. Heilsuefling í víðasta skilningi þess orðs er lykilatriði. Heilsueflingin krefst þverfaglegra aðgerða og samhæfðra lausna, þar sem áhugasamtök og aðilar vinnumarkaðarins koma einnig að málinu. Það er þverpólitískt og þverþjóðfélagslegt og verður ekki unnið nema í samráði við heilbrigðisstéttirnar. Það þarf að efla heilsugæsluna með pólitískri ákvörðun um samvinnu ríkis og sveitarfélaga þar sem sveitarfélög yfirtaka rekstur heilsugæslustöðvanna, í þágu þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.
Það er nauðsynlegt fyrir heilbrigðisþjónustuna að setja sér markmið. Fyrst og fremst þarf markmiðið að fela í sér raunhæfa möguleika á að hægt sé að ná því. Heilsuefling er raunhæft markmið þar sem íslenska heilsugæslukerfið, hentar vel ef það virkar og mun spara stórfé þegar til lengdar lætur. Íslenska heilbrigðiskerfið kemst ekki af án heimilislækna eða heilsugæslustöðva. Það er raunhæft markmið að sveitarfélögin á Suðurnesjum taki að sér að reka þá starfsemi án stjórnunarafskipta ríkisins. Þá er málið í okkar höndum og undir okkur komið að gera það vel.

Skúli Thoroddsen
er lögfræðingur, með framhaldsnám í heilbrigðisþjónustufræðum og starfar sem framkvæmdastjóri MSS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024