Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Föstudagur 21. mars 2003 kl. 14:38

Mál að linni

Við höfum vanist því Suðurnesjamenn að sækja á brattann og yfirstíga hindranir í ýmsum skilningi þó svo að hér séu hvorki há fjöll eða ófærur miklar. Við höfum oft tekist á við margháttuð umbótamál sem okkur hafa fundist mikilvæg á hverjum tíma með sjálfsbjargarviðleitnina að leiðarljósi. Íbúar hér þekkja það nefnilega vel að sitja undir þeim orðum á stundum að búa nánast á einskismannslandi, að tilheyra hvorki landsbyggð né stór Reykjavíkursvæðinu nema þegar það hentar í öðru hvoru tilvikinu. Það má því álykta sem svo að við íbúar á þessu svæði höfum tileinkað okkur góða aðlögunarhæfni.En þanþolið er ekki óendanlegt og nú erum við komin að endamörkum.

Í tæpa fimm mánuði höfum við búið við það ástand sem öllum er kunnugt um að vera nánast með óstarfhæfa heilsugæslu. Þeir örfáu aðilar sem á þessum tíma hafa staðið vaktina og lagt sig fram við að gera sitt besta geta eðli málsins samkvæmt ekki unnið margra manna verk. Þrátt fyrir þessar staðreyndir þá lesum við og heyrum sagt í fjölmiðlum eftir stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að allt sé bara í þokkalega góðu lagi á stofnuninni. Þar sé engum vísað frá, allir fái þjónustu sem þess óska og svo hafi verið ráðnir þangað virtir sérfræðingar á ýmsum sviðum. Þetta er sem sagt bara allt í góðu.

Ef þetta er í lagi þá má spyrja sig þeirra spurninga hvort við höfum verið á villigötum í mörg ár? Hvort ekki sé þá tímabært að skoða málefni heilsugæslu landsmanna í öðru ljósi og út frá öðrum forsendum? Það má leiða að því líkum að um verulega ofþjónustu hafi verið að ræða á þessu svæði. Ef núverandi staða er í lagi með einn heilsugæslulækni starfandi á Heilbrigðisstofnun okkar Suðurnesjamanna þá þarf málefnið nánari skoðunar við.

Hlutverk heilbrigðisþjónustunnar

Það geta ríkt mismunandi sjónarmið varðandi hlutverk heilbrigðisþjónustunnar og vægi hvers sérfræðiþáttar fyrir sig. Við þekkjum þá umræðu sem oft hefur komið upp varðandi starfssemi skurðstofu sjúkrahússins, lokun fæðingardeildarinnar og hlutverk D-álmu svo dæmi sé tekið. Um þau atriði getur okkur greint á og sýn manna á þá þjónustu getur verið mismunandi. Í flestum tilvikum má þó ætla að almenningur skilji þau sjónarmið og ástæður sem liggja til grundvallar þeim ákvörðunum sem teknar eru í því sambandi.

En eitt er það hlutverk sem telja má víst að allir séu sammála um og það er; að hafa greiðan aðgang að öflugri grunnþjónustu, góðri heilsugæslu. (n.b. mönnuðum læknum) Læknisþjónusta á heilsugæslu er ekki aðeins mikilvægt öryggisatriði þegar bráð veikindi steðja að heldur einnig og ekki síður heilsuvernd, til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði, svo vísað sé í lög um heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan er grunnþjónusta sem öll sérfræðiþjónusta hlýtur að byggja ofaná. Grunnþjónusta sem er sjálfsögð, eðlileg og nauðsynleg í nútímasamfélagi.

Um hvað snýst þetta mál?

Við spyrjum – hvers vegna er staðan í læknamálum heilsugæslunnar eins og raun ber vitni? Hvað gerðist raunverulega? Hver ber ábyrgðina? Hver er ástæða þess að læknar landsins hafa ákveðið að vilja ekki þjónusta íbúa á Suðurnesjum? Er verið að bjóða læknum önnur kjör en gengur og gerist í öðrum þéttbýliskjörnum? Getur verið að þetta mál snúist eingöngu um krónur og aura?

Það er alveg ljóst að málið er í hnút en það er óásættanlegt fyrir íbúa Suðurnesja að hér sé einn heilsugæslulæknir að störfum mánuðum saman.
Þeir aðilar sem bera ábyrgð í þessu máli verða að komast upp úr þeim hjólförunum sem þeir eru fastir í, brjóta odd af oflæti sínu og vinna vinnuna sína. Það er er siðferðisleg skylda þeirra og krafa íbúanna.

Á undanförnum mánuðum hafa íbúar á Suðurnesjum stundum verið dregnir til ábyrgðar vegna þessa máls og látið að því liggja að þeir hafi sýnt þessu máli sinnuleysi og fálæti. Suðurnesjamenn eru neytendur umræddrar þjónustu sem vel á minnst er fjármögnuð með skattpeningum okkar. Íbúar þessa svæðis (neytendurnir) eru einu aðilarnir sem EKKI bera ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir og alls ekki sér fyrir endann á.

Það er mál að linni og þeir aðilar sem til þess eru kallaðir sinni skyldu sinni og leysi úr þessu ófremdarástandi ekki seinna en strax.

Anna Margrét Guðmundsdóttir
Sigríður Daníelsdóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024