Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Má ekkert lengur?
Laugardagur 29. september 2018 kl. 06:00

Má ekkert lengur?

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur

Orkuveitumálið svokallaða hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur og ekkert undarlegt við það. Stórundarlegt mál sem hefur hrundið af stað keðjuverkandi atburðarrás. Framkvæmdastjóra Orku Náttúrunnar (ON) var sagt upp störfum og forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) steig til hliðar. Tvö önnur mál komu svo upp á yfirborðið í kjölfar umræðunnar innan samstæðunnar. Fjármálastjóri OR fékk áminningu fyrir dólgslæti og kynferðislegt áreiti á árshátíð fyrirtækisins og sá sem átti að taka tímabundið við sem framkvæmdastjóri ON var sakaður um alvarleg kynferðisbrot og gæti ekki af þeim sökum tekið við starfinu. Bökkum aðeins. Forstöðumanni ON (kvk.) var sagt upp störfum án nokkurra skýringa eftir að hún kvartaði yfir framkomu yfirmanns síns gegn konum. Hún missir vinnuna, en OR ákveður hins vegar að áminna starfsmann (kk.) vegna dólgshátta á starfsskemmtun.

Er ekki eitthvað bogið við þetta, ef öll kurl eru komin til grafar, því engar upplýsingar liggja enn fyrir um brottrekstur konunnar? Í raun hef ég ekki sett mig í neinn flokk í þessu máli hvað varðar afstöðu, aðra en sú að ég er kona og árið er 2018.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í kjölfar #metoo-vakningarinnar, jafnlaunavottunar og aukinnar meðvitundar um misjafna stöðu kynjanna þá finnst sumum að jafnréttispendúllinn hafi sveiflast aðeins of langt yfir á kvenhliðina. Í því sambandi heyrist oftar en ekki frá karlkyninu: „Í alvöru, má ekkert lengur?“. Þetta fær mig til að staldra við og langa til að öskra upphátt.

Ég hlustaði á fréttasamantekt á Bylgjunni sl. laugardag þar sem tveir spekingar (kk.) voru fengnir í settið til að ræða það sem hæst bar í fréttum vikunnar. Orkuveitumálið bar á góma, gott og vel og allir sammála um að þetta væri ekki boðlegt. Hins vegar töluðu báðir viðmælendur um að „það sem mátti fyrir tíu árum má bara ekki lengur – skamm!“. Af hverju var allt þetta rugl sem er að koma upp á yfirborðið í dag í lagi fyrir tíu árum? Samkvæmt þessu hefur jafnréttisbaráttan bara skilað árangri síðastliðin tíu ár.

Það að draga hálft mannkynið í dilka, kvendilkinn í þessu tilviki, og réttlæta út frá því að aðrar reglur gildi fyrir þann dilk er í besta falli fáránlegt. Jafn fáránlegt og allur annar dilkadráttur, hvort sem það er eftir húðlit, trú eða uppruna. Við erum öll manneskjur með okkar tilfinningar og drauma. Að viðbrögð annarra verði „Má bara ekkert lengur?!“ við einhverju sem var alltaf rangt til að byrja með er bara afneitun á nýjum veruleika sem er orðinn. Hættum að vera fávitar og förum að haga okkur eins og manneskjur og af virðingu hvort við annað, hvort sem við erum konur eða karlar. Ok?