Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Má bjóða þér tvo?
Þriðjudagur 8. maí 2007 kl. 15:59

Má bjóða þér tvo?

Þá er langt liðið á kosningabaráttuna og eingöngu þrír dagar eftir fyrir kjördag. Ég er þakklát fyrir það hversu vel okkur frambjóðendum hefur verið tekið á vinnustöðum og hvað við finnum mikinn hlýhug í okkar garð.

Hitti í gær konu sem býr í Kópavogi en hóf nýlega störf í Reykjanesbæ. Hún minntist sérstaklega á kurteisi ökumanna hér í bænum. Um leið og hún gengur að gangbraut er búið að stoppa fyrir henni. Segist þurfa að bíða mun lengur á höfuborgarsvæðinu. Mér fannst vænt um þetta og sagði stolt „Já, svona er mitt fólk hér syðra."

 

Svo er bara spurning um hvað gerist á kjördag. Við framsóknarmenn viljum gjarnan halda áfram þeirri uppbyggingu sem við höfum staðið fyrir undanfarin ár. Uppbyggingu sem hefur skilað þjóðinni upp í 2. sæti þegar Sameinuðu þjóðirnar mæla lífskjör, skilar Íslandi í 4. sæti yfir samkeppnishæfni þjóða heims og í efsta sæti þegar borið er saman við Evrópu. Stjórnarfarslegur stöðugleiki er hér sá mesti sem þekkist. Landið er talið sérlega vinsamlegt erlendum fjárfestum, við erum í 2. sæti þegar frumkvöðlastarfsemi er mæld og hér er kaupmáttur 23% yfir meðaltali í OECD ríkjunum og hefur aukist um 60% í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Sem betur fer ganga stjórnmálin út á það að sífellt sé betur gert, aukið í og lagað og við getum gert betur.  Það er hins vegar ekki hægt að gera allt í einu og síendurteknar svartmálaðar klisjur stjórnarandstæðinga eru oft ekki annað en innihaldslausir talnaleikir þar sem menn velja sér forsendur og ljúga án þess að segja ósatt. 


Þeir sem lært hafa grunn tölfræði vita að með réttum forsendum og með því að velja réttu tölurnar í reikningsdæmið er hægt að fá út hvaða niðurstöðu sem er. Við höfum lagt okkur fram um að greina stöðuna, sjá fyrir og bregðast við í tíma. Þess vegna erum við í flestum tilvikum fremst meðal jafningja í samanburði við aðrar þjóðir þar sem sömu mælikvarðar eru lagðir á sömu hluti. Órökstuddir talnaleikir breyta ekki þeim samanburði.

Sjálf hef ég haft tækifæri til þess að taka þátt í uppbyggingu hér á mínum heimaslóðum. Ég var kölluð til starfa þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var breytt í hlutafélag í eigu ríkisins árið 2000. Eftir það urðu tekjur félagsins að mestu leyti eftir hér syðra til þess að hægt væri að halda áfram uppbyggingu. Nú verða 50-70 ný störf til í beinum tengslum við flugið á ári hverju. Fyrirhugaður háskóli á Keflavíkurflugvelli með þúsundum nýrra íbúa á næstu árum með tilheyrandi eftirspurn eftir ýmis konar þjónustu færir okkur gríðarmörg sóknarfæri sem mikilvægt er að nýta vel. Gaman verður að fá að taka þátt í því verkefni eins og reyndar öllum þeim spennandi verkefnum sem mér hefur hlotnast að fá að taka þátt í í stjórnmálunum og atvinnulífinu.

Mestar líkur eru á að eignast tvo þingmenn af svæðinu, merki menn X við B þar sem Sjálfstæðismenn virðast nú þegar vera búnir að koma sínum Suðurnesjamanni að og gott betur. Ég bið því Suðurnesjamenn að hugsa til okkar Framsóknarmanna á kjördag.

Helga Sigrún Harðardóttir skipar 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024