Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lýðræðisvandi í Reykjanesbæjar
Föstudagur 23. október 2015 kl. 07:00

Lýðræðisvandi í Reykjanesbæjar

Nú liggur fyrir að íbúakosning um breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins í Helguvík vegna kísilvers Thorsil verður haldin dagana 24. nóvember til 4. desember næstkomandi. Íbúakosningin er haldin að kröfu rúmlega 25% kosningabærra íbúa Reykjanesbæjar. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkar kosningar eru haldnar á grundvelli nýrra laga um sveitarstjórnir sem tóku gildi árið 2011. Því er um merk tímamót að ræða fyrir íbúalýðræði á Íslandi. Í því ljósi mætti draga þá ályktun að Reykjanesbær sé vagga lýðræðis á Íslandi, en því fer fjarri því lýðræðið virðist einfaldlega flækjast fyrir núverandi meirihluta sem þó sækir umboð sitt til bæjarbúa.

Hvernig er Reykjanesbær bundinn Thorsil?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjaryfirvöld hafa einfaldlega lýst því yfir með afgerandi hætti að niðurstaða kosninganna skipti engu máli og að nýtt deiliskipulag verði samþykkt algjörlega óháð niðurstöðu þeirra. Með þessari ótrúlegu yfirlýsingu er meirihlutinn að setja þarfir stórfyrirtækis ofar þeirri niðurstöðu sem kann að koma út úr kosningu íbúa sem búa í sveitarfélaginu. Ekkert hefur komið fram, samningar eða annað, sem sýna að Reykjanesbær sé skuldbindinnn Thorsil.

Eini samningurinn sem virðist vera til staðar er lóðaleigusamningur sem bæjaryfirvöld hafa veitt Thorsil ítrekaðan frest til að uppfylla. Nánar tiltekið hefur Thorsil í tvígang fengið frest til þess að greiða Reykjaneshöfnum upphæð samkvæmt lóðarleigusamningnum. Á sama tíma og frestur er veittur birtast svo fréttir í fjölmiðlum um að höfnin stefni í greiðslufall. Það er því með ólíkindum hversu langt bæjaryfirvöld eru tilbúin að ganga í þágu hagsmuna Thorsil.

Óboðleg framsetning á kjörseðli

Þau tíðindi urðu síðastliðinn fimmtudag að bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti dagsetningar fyrir íbúakosninguna, spurninguna sem lögð verður fyrir íbúa og framsetningu hennar á kjörseðli sem er eftirfarandi:

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þeirri breytingu sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti 2. júní 2015, á deiliskipulagi í Helguvík vegna fyrirhugaðs kísilvers?

Hlynnt(ur)

Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)

Andvíg(ur)

Spurningin sem slík er í lagi en það eru valkostirnir sem eru sérstakir. Það að bjóða upp á kostinn: „Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)“ er aftur á móti vægast sagt óvenjulegt. Í fyrsta lagi gerir spurningin sjálf ráð fyrir að svarið sé af eða á. Í öðru lagi er það hefðin í almennum kosningum að kjósendur lýsi yfir hlutleysi sínu með því að annað hvort sitja heima eða mæta á kjörstað og skila auðu. Er framsetning bæjarráðsins á kjörseðlinum því nokkuð byltingarkennd. Í þriðja lagi, og því sem mestu skiptir, er þetta einfaldlega óboðlegt í ljósi þess hvert efni kosningarinnar er. Þarna er verið að kjósa um breytingu á deiliskipulagi sem stjórnir sveitarfélaga taka afstöðu til með samþykkt eða synjun. Það er ekki í boði fyrir sveitarfélög að afgreiða tillögur um breytingu á deiliskipulagi með „hvorki samþykkt né synjað.“

Í þessu samhengi má einnig líta til þeirrar reynslu sem er af íbúakosningum um sameiningar sveitarfélaga. Þar hefur framsetning kjörseðils ávallt verið þannig að kjósendur hafa geta valið af eða á.

Framsetning bæjarráðs Reykjanesbæjar á kjörseðlinum verður ekki skilin öðruvísi en tilraun til að hafa áhrif á niðurstöðu íbúakosningarinnar og bætist þannig við fyrri tilraunir. Það er einsýnt að kæra verður framkvæmd íbúakosninganna til innanríkisráðherra ef bæjarráð Reykjanesbæjar gerir ekki breytingar á kjörseðlinum.

Vinnubrögð bæjarstjórnar Reykjanesbæjar verða að vera betri en þetta, það er ekki hægt að bjóða kjósendum upp á þetta.

Fasteignaverð í efri byggðum

Þrátt fyrir að það eigi fyrst og fremst að horfa á þetta mál út frá loftgæðum og umhverfisverndarsjónarmiðum, þá ætla ég einnig að benda íbúum Reykjanesbæjar sérstaklega þeim sem búa nálægt fyrirhugaðri verksmiðju að ef þessi verksmiðja mun rísa og loftgæði versna þá mun fasteignaverð líklegast lækka, mest næst verksmiðjunni. Eru íbúar Reykjanesbæjar tilbúnir að eignir þeirra lækki ef allt fer á versta veg? Er fólk tilbúið að tapa loftgæðum og jafnvel peningum líka?

Ég hvet íbúa Reykjanesbæjar að taka upplýsta ákvörðun, ég hvet fólk að taka hagsmuni íbúa fram yfir hagsmuni stórfyrirtækis. Ég hvet fólk til að taka hagsmuni náttúru og loftgæða fram yfir, hagsmuni fárra auðmanna.

Benóný Harðarson