Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Lýðræðið er fótum troðið
  • Lýðræðið er fótum troðið
    Trausti Björgvinsson.
Föstudagur 2. október 2015 kl. 10:48

Lýðræðið er fótum troðið

– Trausti Björgvinsson skrifar

Lýðræðið er fótum troðið af bæjarstjórn Reykjanesbæjar varðandi þá íbúakosningu sem fram á að fara í bæjarfélaginu í nóvember. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, telur að það komi ekki til greina að hætta við framkvæmdir við verksmiðju Thorsil, jafnvel þó andstaða yrði mikil í íbúakosningu.

„Ég skynja stöðuna þannig að menn vilji bara klára þetta mál og túlka það sem svo að bæjarstjórnin muni ekki taka mark á íbúakosningunni,“ segir Kjartan. Hann tekur þó fram að það verði undir bæjarstjórninni komið, en hann sé bara framkvæmdastjóri bæjarins. „Ég vinn bara eftir þeim línum sem bæjarstjórnin leggur.“

Nú hef ég undirritaður verið fylgjandi því að starfsemi í Helguvík fari af stað af fullum krafti en að stóriðja þar sem mengunarmörkum er að fullu náð og hætta jafnvel á að farið verði yfir leyfileg mörk vill ég ekki sjá í mínu bæjarfélagi og ef meirihluti íbúa bæjarins er mótfallin þeirri starfsemi sem áætlað er að rísi í Helguvík tel ég að virða eigi íbúakosninguna.

Þar sem hamrað var á því í sveitarstjórnarkosningum 2014 af öllum flokkum að lýðræði yrði virt í Reykjanesbæ og breytingar yrðu á þeim vinnureglum sem Sjálfstæðisflokkur viðhafði í bæjarfélaginu.

Þá spyr ég, er þetta það lýðræði sem þið töluðuð um í aðdraganda kosninganna?
 
Nú býst ég fastlega við að bæjarstjórinn sé að reyna að draga úr þátttöku íbúa í kosningunum þar sem þegar sé ákveðið að vilji íbúa verði ekki virtur ef meirihluti verður á móti áætlunum bæjarstjórnar,  og er það skammarlegt að mínu mati.

Búast má fastlega við að þetta verði millibilsbæjarstjórn og íbúar leggi atkvæði sitt á aðra í næstu kosningum.

Það er skammarlegt að bæjarstjórn Reykjanesbæjar virði bæjarbúa einskins í þessu máli. Að notast við það að við gætum lent í skaðabótamáli er ekkert annað en hræðsluáróður og ef svo yrði að við lentum í slíku þá verðum við að leysa þann vanda eins og aðra. Horfum fram á veginn og virkjum beint lýðræði, það er einmitt það sem skoðanarkannanir eru að sýna í dag að fólk vill.

Ég vil helst ekki trúa því að þetta fólk sem hafði svo stór orð um lýðræði í aðdraganda kosninganna ætli að fara þennan veg sem sagt hefur verið að farin verði.

Að lokum vill ég senda bæjarstjórn Reykjanesbæjar þá ósk  að vilji minn og annara íbúa verði virtur í þeirri kosningu sem fram á að fara um þetta mál. Lýðræði er ekki til að leika sér að og er von mín að núverandi stjórn Reykjanesbæjar taki mark á íbúum og verði ekki með einhverjan leikaraskap gegn lýðræðinu.

Með kærri kveðju,
Trausti Björgvinsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024