Lýðræði: Okkar ábyrgð!

Á nokkurra ára fresti tökum við okkur saman í andlitinu, nefnilega fyrir kosningar, og veltum fyrir okkur ýmsu því sem vildum að betur færi, uppgötvum jafnvel að eiginlega vorum við fremur ósátt við eitt og annað sem bæjarstjórnin okkar ákvað á síðasta kjörtímabili, en þá, þegar við heyrðum fyrst af þessum ákvörðunum, nenntum við sannast sagna ekki að gera neitt í málunum - og svo bara gleymdist málið. Og bæjarstjórnin sem er búin að stjórna í friði fyrir okkur allt kjörtímabilið verður eðlilega aldeilis rasandi bit yfir allri þeirri gagnrýni sem skellur alltíeinu á henni rétt fyrir kosningar. "Af hverju sögðuð þið ekkert fyrr?" spyr stjórnvaldið. Jú, vegna þess að það kostaði okkur vesen, áreynslu, og "þeir hlusta jú hvort eð er aldrei á mann", segir einhver. Þannig bendir hver á annan og allir eru saklausir. En það er enginn saklaus. Ekki heldur ég. Og ekki heldur stjórnvaldið, sem gleymdi sér af því það fékk að stjórna í friði, af gömlum vana.
Ég leyfi mér að vitna í stefnuskrá Samfylkingarinnar:
"Við viljum víðtækt lýðræði. Fulltrúar almennings taki ákvarðanir um sameiginleg málefni fyrir opnum tjöldum. Sem flestar ákvarðanir verði teknar beint af þeim hópum fólks sem þær varða. Einstaklingar, samtök á vinnumarkaði og frjáls félagasamtök hafi sem mestan sjálfsákvörðunarrétt."
Mér finnst við þurfa aðhald, eitthvað sem rekur okkur oftar til að hugsa um lýðræðið. Það ætti að vera í lögum, að sveitarstjórn sé skylt að halda íbúafundi a.m.k. árlega, og að ekki megi taka afdrifaríkar ákvarðanir einsog að selja stóran hluta eigna bæjarins án almennrar atkvæðagreiðslu. Í dag gilda reglur um ýmislegt í skipulagsmálum, það er t.d. skylt að auglýsa aðalskipulag, deiliskipulag, breytingar á ofannefndu, það er skylt að leita álits nágranna ef einhver vill stækka bílskúrinn meira en deiliskipulag gerir ráð fyrir, o.s.frv. Þetta nefni ég sem dæmi um nauðsynlegar leikreglur handa okkur til að fara eftir. Svona reglur þyrftum við víðar.
En bæjarstjórn er heimilt að selja eignir bæjarins án þess að nefna það við nokkurn íbúa. Þetta finnst mér ekki eðlilegt. Þessu vil ég breyta. Þess vegna býð ég mig fram til bæjarstjórnar.
Bæjarstjórnarmeirihlutinn, sem nú er að enda sitt síðasta kjörtímabil, hefur margt gott gert, og hugsað á sinn hátt um að gera hag bæjarfélagsins sem bestan. Hér hafa stjórnað menn framkvæmda en ekki fundahalda. Það er vissulega brýn nauðsyn að sýna dugnað í verki, en við megum ekki gleyma okkur svo í vinnugleðinni, að lýðræðið týnist.
S - listinn er skipaður fólki með reynslu, dugnað, þekkingu og virðingu fyrir samborgurunum. Við ætlum að gera góðan bæ betri.
Góðir Sandgerðingar!
Ég býð fram krafta mína og reynslu til að gera Sandgerði að fyrirmyndarbænum sem okkur öll dreymir um að búa í, þarsem jafnrétti ríkir og lýðræði. Ég ætla að vera maður framkvæmda, en líka fundahalda, lýðræðis. Ég vil sjá ferskan andblæ, nýja sýn á lífið í Sandgerði. Ég bið ykkur um að hjálpa mér, og hnippa í mig ef ykkur finnst ég á rangri leið. Ég þarf gagnrýni einsog allir aðrir.
Sturla Þórðarson
skipar 3. sætið á S - listanum