Löng bið eftir samgönguráðherra
Í Helguvík standa nú yfir umfangsmestu hafnaframkvæmdir landsins ef frá eru taldar framkvæmdir við Bakkafjöru í Landeyjarhöfn.
Í marga mánuði hafa forsvarsmenn Reykjanesbæjar boðið samgönguráðherra, Kristjáni Möller, ráðherra Samfylkingarinnar, að koma til Reykjanesbæjar til viðræðna um aðkomu ríkisins að framkvæmdum í Helguvík.
Kristján hefur ekki geta þekkst það boð ennþá og hefur borið fyrir sig að mikið sé að gera og verkefnin mörg í ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Ég dreg ekki í efa að það sé rétt hjá honum.
Það vakti þó athygli mína að fyrr í vikunni gat hann gefið sér tíma til þess að fara, ásamt fjármálaráðherra landsins, til þess að hlusta á mótmæli íbúa á Egilsstöðum, vegna uppsagnar 3 starfsmanna ríkisútvarpsins á Austurlandi.
Hann gefur sér líka tíma til þess að koma til Suðurnesja í dag, föstudaginn 5.febrúar, til þess að ræða um sameiningu sveitarfélaga og nýjar leiðir við eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Mikilvægustu og einar umfangsmestu hafnarframkvæmdir landsins sem eru grunnur að álveri í Helguvík, skapar þúsundir starfa og eru um leið grundvöllur að hagvexti þjóðarinnar á næstu árum samkvæmt nýlegri þjóðhagsspá eru samt ekki nægilega mikilvægar til þess að samgönguráðherra finni smugu í þétt skipaðri dagskrá sinni til þess að skoða – þó svo að beðið hafi verið í marga mánuði.
Forgangsröð verkefna getur verið einkennileg !!!
Böðvar Jónsson
Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar