Lokaútkall: Við viljum og getum
Það er bjargföst trú okkar sjálfstæðismanna að hraðvirkasta og raunar eina færa leiðin út úr efnahagsvanda Íslendinga verði fyrir tilverknað skapandi, duglegra og kraftmikilla einstaklinga. Ríkið getur aldrei leyst einstaklingana af hólmi að þessu leyti.
Það sem ríkið getur gert og á að gera við núverandi aðstæður er fyrst og fremst þrennt: Í fyrsta lagi að ljúka endurskipulagningu fjármálakerfisins og tryggja endurfjármögnun bankanna innan þriggja mánaða til að þeir geti þjónað sínu hlutverki gagnvart atvinnulífinu en séu ekki bara innlána- og innheimtustofnanir. Í öðru lagi að létta byrðarnar á heimilum og fjölskyldum í landinu með því að lækka greiðslubyrði af íbúðarhúsnæði um helming í þrjú ár. Í þriðja lagi að stuðla að nýrri atvinnuuppbyggingu og hlúa að gömlu grunnstoðunum, en þvælast ekki fyrir hvorutveggja eins og nú er raunin með ríkisstjórnarflokkana.
Þetta viljum við sjálfstæðismenn en við viljum EKKI hækka skatta og leggja á nýja, - EKKI koma í veg fyrir olíuleit- og vinnslu á Drekasvæðinu, - EKKI koma í veg fyrir álver á Bakka við Húsavík, - EKKI stefna sjávarútveginum í þrot með fyrningu aflaheimilda, - EKKI þjóðnýta flugfélög.
Og svona mætti áfram telja. Við viljum sem sagt EKKI drepa þetta þjóðfélag í dróma ríkisafskipta og ríkissforsjár eins og vinstri flokkarnir stefna nú að, - leynt og ljóst. Við viljum að einstaklingarnir fái að njóta sín frjálsir í tryggu samfélagsumhverfi. Við megum ekki missa sjónar á þessu grundvallaratriði - þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Við erum nefnilega að kjósa um framtíðina en ekki fortíðina.
Ef þú ert sammála þessum grundvallarsjónarmiðum ættirðu EKKI að sitja heima og EKKI að skila auðu heldur kjósa Sjálfstæðisflokkinn. X-D!
Íris Róbertsdóttir
skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi