Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lokaorð Sævars Sævarssonar- Setjum íþróttir aftur á oddinn
Laugardagur 14. apríl 2018 kl. 08:00

Lokaorð Sævars Sævarssonar- Setjum íþróttir aftur á oddinn

Við sem elskum kosningar höfum verið dekruð mikið síðastliðin ár. Líklega hefur verið kosið oftar á síðastliðnum 10 árum en alla lýðveldissöguna fram að því. Næstu kosningar eru sveitarstjórnarkosningar og það er sérstaklega tvennt sem yljar mér við þá staðreynd. Í fyrsta lagi fer aðsendum greinum frá fólki sem heyrist varla í yfir kjörtímabilið að fjölga. Svo mikið fjölgar þeim síðustu vikurnar fyrir kosningar að allt eins líklegt er að við förum að heyra hósta og stuna frá Frjálsu afli sem kom eins og stormsveipur inn í sveitarstjórnarmálin fyrir fjórum árum í Reykjanesbæ.

Hins vegar hefur maður fundið álíka mikið fyrir þeim frá síðustu kosningum og meðvindinum í Reykjaneshöllinni og öðrum íþróttamannvirkjum bæjarins. Í öðru lagi fara frambjóðendur að mæta á íþróttakappleiki og menningarviðburði sem þeir hafa aldrei sést á áður í veiðivon um atkvæði. Það er ekki laust við að um mann hríslist kjánahrollur þegar maður sér skælbrosandi frambjóðendur heilsa almúganum með virktum eins og um meðlimi bresku krúnunnar sé að ræða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Því miður er það staðreynd að minna verður um vandræðalega frambjóðendur á körfuboltaleikjum hér í bæ en áður sökum áður óþekkts gengis liðanna. Bara sú staðreynd ætti að vera tilefni hvatningar til þeirra aðila sem sækjast eftir kjöri í Reykjanesbæ að setja íþróttir aftur á oddinn og horfa frá þeirri sveltistefnu sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár. Forsvarsmenn félaganna hafa bæði metnað og vilja til að vera við toppinn. Það væri frábært ef metnaður og vilji bæjarfulltrúa væri sá sami því ég er nokkuð viss um að metnaður og vilji íbúanna rímar við metnað og vilja forsvarsmanna félaganna sem unnið hafa hér þrekvirki þrátt fyrir bágan fjárhag.

Hér í bæ ættu allar forsendur að vera til staðar svo þessi forðum mikli íþróttabær eigi félög sem eru í fremstu röð. Til að svo megi vera þarf hins vegar stuðningur bæjarfélagsins, hvað varðar fjárhag, aðstöðu o.fl., að vera mikið mun meiri. Spyrnum við fótum og setjum íþróttir aftur á oddinn svo íþróttafélög bæjarins fari aftur á toppinn, þar sem þau eiga heima!