Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur: Uppgjör og fögur fyrirheit
„Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka…“ segir í ljóðinu góða. Við höfum kvatt 2017 og bjóðum 2018 hjartanlega velkomið með allar þær vonir og væntingar sem fylgja nýju ári. Tími uppgjöra, annála og fagurra fyrirheita er runninn upp.
Byrjum á uppgjörinu. Árið 2017 var um margt ágætt en að mörgu leyti sérstakt. Fyrir mig persónulega held ég að ég muni minnast þess sem „millibilsársins“, ársins þegar ég pústaði og dró andann djúpt, þetta var árið sem ég notaði til að finna út hvað ég ætlaði að verða þegar ég verð stór, árið þegar ég naut frelsisins og þess að vera með fólkinu mínu. Það var einmitt áramótaheitið mitt fyrir ári síðan - að grysja og forgangsraða og gera bara skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki. Og það hefur tekist ljómandi vel, reyndar svo vel að ég hef fengið aukna tiltrú á gildi áramótaheita. Ég tók þessu heiti til að mynda svo alvarlega að í byrjun febrúar hélt ég þrjú matarboð á einni helgi. En 2017 var líka erfitt og erfiðast var að þurfa að kveðja tvær afar kærar vinkonur. Önnur fór allt of, allt of snemma - hin kvaddi eftir langa ævi. Báðar kenndu þær mér svo margt og munu eiga stórt pláss í mínu hjarta um ókomna tíð.
Og þá að 2018, sem er þá samkvæmt framansögðu árið á eftir „millibilsárinu“. Árið eftir hlé. Sem er ágætlega viðeigandi þar sem ég varð fimmtug í fyrra og er eftir því sem mér skilst að hefja seinni hálfleikinn. Og ég ætla mér að spila heimsklassa seinni hálfleik. Ég er með nokkuð góða hugmynd um það hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór og stefni því að hætta að pústa og ráða mig í svona alvöru vinnu með skrifstofu og starfsmannafélagi.
Áramótaheitið frá því í fyrra verður að sjálfsögðu endurtekið og ég ætla að passa upp á að „livva og njódda“ áfram með góðu fólki. En ég hef ákveðið að bæta ogguponsu við heitið í ár. Í trausti þess að ég nái að uppfylla það eins vel og síðast stefni ég sum sé líka að því að verða rosalega mjó og fá böns af monný! Ég legg ekki meira á ykkur.
Lengi lifi áramótaheitin. Ég óska lesendum Víkurfrétta allrar hamingju og heilla á nýju ári.