Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lokaorð  Ingu Birnu Ragnarsdóttur: Heit og hamingja
Sunnudagur 21. janúar 2018 kl. 06:00

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur: Heit og hamingja

Mér er ennþá minnistætt þegar ég sat kúrs hjá kennara í stjórnun og stefnumótun í mínu mastersnámi fyrir 14 árum. Hann fór yfir hvernig hann og konan hans settust niður reglulega til þess að setja sér markmið og hvert þau vildu stefna í lífinu. Á þessum tíma fannst mér þetta hljóma hrikalega leiðinlega, í alvöru, hver sest niður og fer yfir eitthvað Excel skjal varðandi eigið líf? Ég hef hins vegar lært með árunum að þetta gerir raunverulega gagn. Þetta heldur manni við efnið.

Ég er sem sagt orðin ein af þeim sem set mér nýársheit um hver áramót.  Í lok hvers árs fer ég yfir árið sem er að líða og spyr mig spurninga eins og „er ég hamingjusöm?“ og „hef ég náð þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir árið?“.  Þetta hljómar rosalega leiðinlega, ég veit. En fyrir mér er hamingjan mín og minna það mikilvægasta í lífinu. Ég er líka ein þeirra sem spyr fólk bara svona á mánudegi hvort það sé hamingjusamt. Þetta fer stundum í taugarnar á dætrum mínum en þær vita hvað þetta þýðir. Eru þær að gera þá hluti í dag sem veitir þeim ánægju og eru þær að stefna þangað sem þær langar til?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er nauðsynlegt að geta skilið að vinnu og einkalíf en engu að síður þá yfirfærir maður margt úr vinnu á sitt persónulega líf og öfugt. Flest fyrirtæki fara að minnsta kosti einu sinni á ári í stefnumótun. Þar eru þrjár lykilspurningar hafðar að leiðarljósi: Hvar erum við? Hvert erum við að fara? Hvernig ætlum við að komast þangað? Þessar spurningar má auðveldlega yfirfæra á eigið líf. Af hverju förum við ekki oftar í stefnumótun með okkur sjálf eins og gert er í fyrirtækjarekstri? Förum svo reglulega yfir hvort við séum að ná okkar markmiðum. Þó þetta hljómi allt frekar „boring“ þá getum við gert margt verra en að marka stefnuna fyrir okkar eigið líf.

Auðvitað er ég ekki með mín markmið í Excel skjali, en ég á „bucket“ lista og ég á mér skrifleg heit og markmið fyrir hvert ár. Ég trúi því nefnilega að maður fái meira út úr lífinu með stefnu, meðvitund og dass af núvitund. Þetta þurfa hvorki að vera mikilfengleg heit eða íþyngjandi markmið um að sigra heiminn eða fara fara í fallhlífarstökk. Þetta geta verið einfaldir hlutir eins og að bjóða þeim sem mér þykir vænt um oftar í mat, brosa meira, segja oftar já eða gera einfaldlega meira af því sem veitir manni gleði.