Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 10. janúar 2001 kl. 10:23

Löggæsla á Reykjanesbraut og tvöföldun

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar er hagsmunamál fyrir alla landsmenn og Hjálmar Árnason, alþingismaður er einn þeirra sem barist hefur fyrir því að fá tvöfölduninni fýtt á vegaáætlun. Hann segir í bréfi sínu að í svörum samgönguráðherra á Alþingi hafi falist pólitískar viljayfirlýsingar.
Undirritaður man vart eftir jafn mikilli samkennd meðal Suðurnesjamanna eins og hugur fólks er gagnvart tvöföldun Reykjanesbrautar. Segja má að samhugur þessi sé einstakur enda um að ræða gífurlegt öryggismál fyrir alla landsmenn.

Svo einkennilega sem það hljómar þá hefur sex sinnum verið flutt þingsályktun um málið - studd öllum þingmönnum kjördæmisins - en ekki náð framgangi í meðförum þingsins. Fyrst með síðustu vegaáætlun tókst að fá verkið viðurkennt! Ekki fyrr en s.l. vor! Þar náðist í raun fyrsti áfangasigur í málinu.
Næsta skref má segja að hafi náðst þegar samgöngunefnd afgreiddi vegaáætlun með þeim athugasemdum að stefnt yrði að því að ljúka verkinu 2006/7. Þriðji áfanginn má segja að hafi náðst við ítrekuðum spurningum til samgönguráðherra um vilja hans til að flýta verkinu enn frekar.
Í bæði skiptin svaraði hann fyrirspurnum undirritaðs á Alþingi jákvætt. Í þessu felast pólitískar viljayfirlýsingar. Þær opna fyrir möguleika á frekari framkvæmdahraða. Við útboð verksins í byrjun árs 2002 er því mikilvægt að séð verði fyrir verklokum með fjárveitingum á Alþingi. Að því verki vinnur þingmannahópur Reykjaneskjördæmis. Samstaða almennings á Suðurnesjum og eindreginn vilji sveitarstjórna á svæðinu hljóta að létta mönnum þá vinnu. Ég tel því ástæðu til að vera bjartsýnn á að tvöföldun ljúki innan ásættanlegra tímamarka.

Stóraukin löggæsla á Brautinni
Að frumkvæði sýslumanna á Suðurnesjum hefur náðst samkomulag milli embættanna tveggja um að leggja til sérstakt lið til eftirlits á Reykjanesbraut. Hygg ég að margur sem ekur reglulega um veginn hafi tekið eftir því að lögreglubílar sjást nú oftar þar en nokkru sinni. Fyrir vikið er ég ekki frá því að heldur hafi dregið úr umferðarhraða.
Ástæða er til að fagna þessu frumkvæði sýslumanna á Suðurnesjum. Embættið á Vellinum á einungis að sinna varnarsvæðinu og FLE. Með góðu skipulagi og einbeittum vilja gerðu embættin tvö með sér gagnkvæman samstarfssamning sem miðar að þessari stórauknu löggæslu á Reykjanesbraut. Ástæða er til að fagna þesum aðgerðum embættanna og þeirra ráðuneyta er þau heyra undir. Öflug löggæsla er mikilsverð forvörn í umferð.

Hjálmar Árnason,
alþingismaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024