Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Lofsvert framtak
Föstudagur 3. ágúst 2007 kl. 13:56

Lofsvert framtak

Undanfarnar vikur hafa þeir frændurnir Gunnar Júlíus Helgason og Hilmar Egill Sveinbjörnsson verið á göngu frá fonti á Langanesi að Reykjanestá til styrktar Ungmennafélaginu Þrótti (UMFÞ) í Vogum og sjálfum sér til ánægju.
 
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessu þrekvirki þeirra félaga sem sýnir íþróttaelju þeirra og áræðni við að takast á við íslenska náttúru, sem og hug til UMFÞ. Það er ekki á færi allra að leggja í rúmlega 600 km. göngu með allar vistir og útbúnað á bakinu einu saman.  Við sem heima sitjum hljótum að dásama framtakið þar sem flest okkar notum bílinn í ferðalög á milli landshluta.
 
Ekki get ég sagt að ég þekki innstu kima þeirra frænda í þaula en fyrir utan það að vera báðir þunnhærðir og léttir á fæti þá veit ég til þess að þeir eru miklir íþróttamenn. Báðir hafa stundað íþróttir hjá Þrótti og bera góðan hug til félagsins og Voganna. Þetta framtak þeirra ber að lofa og sýnir kannski dálítið hvað hægt er að gera með góðum vilja og áræðni einstaklinga.   Þetta er okkur hinum góð áminning um hvað við getum lagt af mörku til samfélagsins. 

UMFÞ hefur nú sýnt því áhuga að halda unglingalandsmót í Sveitarfélaginu Vogum í náinni framtíð og er því mikilvægt að á meðan félagið vinnur að þeim undirbúningi þá komi íbúar til hjálpar þegar þörf er á. Mörg dæmi eru þess að félagasamtök í minni sveitarfélögum úti á landi hafi biðlað til íbúa og þrekvirki verið unnin. Munum eftir því þegar UMFÞ leitar til okkar í framtíðinni.  Með þeim orðum vil ég þakka þeim frændum fyrir framtak sitt og býð þá velkomna aftur heim í Voga.

Birgir Örn Ólafsson
íþróttaáhugamaður 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024