Lofrulla Björgvins þingmanns fjölgar ekki atvinnutækifærum á Suðurnesjum
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og fv. bankamálaráðherra skrifar mikla lofgrein um frábær störf samþingmanns síns í kjördæminu, Oddnýjar G. Harðardóttur. Tilefnið Björgvins er að Sjálfstæðismenn séu með rógsherferð gegn henni. Þetta er eldgamalt trix sem Björgvin beitir sem varnarstyrk, þegar erfitt er að ræða málefnalega gagnrýni.
Áhyggjur Sjálfstæðismanna á Suðurnesjum svo og annarra eru vegna þess ástands sem ríkir hér. Atvinnuleysi hér er mest á landinu. Illa gengur að koma nokkrum stórum verkefnum í framkvæmd. Íbúum fækkar í sveitarfélögunum og fjárhagsstaða þeirra versnar. Er eitthvað skrítið að Sjálfstæðismenn vilji ræða þessi mál. Er eitthvað skrítið að íbúar geri kröfu til þingmanna Samfylkingar, sem bera ábyrgð á ríkisstjórninni.
Eftir lestur greinar Björgvins á vef Víkurfrétta mætti halda að hér væri allt í hinum mesta sóma. Þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hefðu unnið þrekvirki til að koma málum áfram. En er það svo?
Ekki eru framkvæmdir á álverinu í Helguvík á fullu. Hafa þingmenn Samfylkingar lamið í borðið og beitt sínum áhrifum? Íbúar hér hafa ekki orðið varir við það.
Hafa þingmenn Samfylkingar mótmælt að ekki er orðið við ósk Sandgerðis og annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum að fyrirhugað fangelsi verði byggt á svæðinu. Hafa menn heyrt þingmenn Samfylkingar mótmæla? Ég veit ekki betur en Björgvin hafi lagt til að byggt yrði á Eyrarbakka og Oddný sat hjá í bæjarstjórn Garðs þegar samþykkt voru mótmæli.
Hafa þingmenn barist fyrir loforðinu um að Landhelgisgæslan yrði flutt til Suðurnesja, sem Ögmundur innarríkisráðherra hefur hafnað. Hafa Samfylkingarmenn látið í sér heyra?
Ekkert varð að því að leigja skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja? Hafa þingmenn Samfylkingar í kjördæminu látið í sér heyra og mótmælt?
Hvað með að taka á móti erlendum sjúklingum á sjúkrahúsinu á Ásbrú?
Vinstri grænir stöðvuðu allar hugmyndir um aðstöðu fyrir þjónustu við vopnlausar herflugvélar. Létu þingmenn Samfylkingar í kjördæminu í sér heyra og mótmæltu?
Verði kvótafrumvarpið samþykkt mun það hafa mjög neikvæð áhrif á sjávarútvegfsplássin hér á Suðurnesjum. Hafa þingmenn Samfylkingar barist á móti frumvarpinu? Hefur einhver heyrt af framgöngu þingmanna Samfylkingar í Suðurkjördæmi?
Hér er fátt eitt upp talið. Það er eðlilegt að Suðurnesjamenn séu orðnir langþreyttir á ástandinu. Sjálfstæðismenn hér á Suðurnesjum telja það líklegast til árangurs að skapa ný atvinnutækifæri. Það er ömurlegt að mikill fjöldi íbúa þurfi að ganga um atvinnulaus. Sjálfstæðismenn hafna stöðnunar- og skattastefnu Vinstri grænna. Auðvitað hafa Sjálfstæðismenn beint málefnalegri gagnrýni sinni til þingmanna Samfylkingarinnar í kjördæminu. Það er ekki rógsherferð Björgvin. Íbúar Suðurnesja ætlast til að þið gerið miklu meira. Þið berið ábyrgð á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í mörgum stórum hagsmunamálum Suðurnesja.
Sigurður Jónsson, fv. bæjarstjóri í Garði.