Ljósmyndun er glæpur
Í Héraðsdómi Þann 20. október féll dómur þar sem kært var fyrir brot á iðnaðarlögum. Brotið fólst í því að hjón höfðu tekið ljósmyndir í stúdíói á heimili sínu án þess að hafa meistara til forstöðu. Þau Börkur og María stofnuðu Auglýsingastofu 2005 og voru með vefsíðuna Brosbörn þar sem þau kynntu að María tæki starfrænar myndir.
Á heimasíðu þeirra kom fram að María væri grafískur hönnuður og ekki væri starfandi lærður ljósmyndari á stofunni. Vakin skal athygli á því að ljósmyndun og myndvinnsla er hluti af námi í grafískri hönnun.
Öll vitnin lýstu því yfir að þau hefðu vitað að hún væri grafískur hönnuður en ekki ljósmyndari og því er ekki hægt segja að hún hafi villt á sér heimildir. Fólk hafði frétt af henni á mismunandi hátt, litist vel á fyrri verk og viljað fá myndir teknar af Maríu.
Ljósmyndun hefur stökkbreyst á síðustu árum, stafræn tækni tekið við og áhugi á ljósmyndun stóraukist. Við stafræna ljósmyndun og myndvinnslu eru ekki notuð nein spilliefni eins og tíðkaðist með filmum. Þar með eru úr sögunni einu haldbæru rökin fyrir því að takmarka þurfi atvinnufrelsi þeirra sem vilja starfa við ljósmyndun á Íslandi.
Ljósmyndun sem iðngrein er orðin að tímaskekkju og á að leiðrétta hið fyrsta enda stangast löggjöfin á við ákvæði stjórnarskráarinnar um atvinnufrelsi en atvinnufrelsi má eingöngu takmarka ef almannahagsmunir krefjast þess. Þess má geta að Það eru fá lönd í heiminum sem vernda ljósmyndun á sambærilegan hátt og gert er hér á landi.
Sem dæmi um hve galið þetta er þá má hver sem er auglýsa sig sem myndatökumann og taka myndskeið við hvaða tilefni sem er en ætli hann að taka ljósmyndir þá brýtur hann lög. Þrátt fyrir að sama myndavélin sé nýtt til beggja verka, en nýjustu stafrænu ljósmyndavélarnar geta tekið myndskeið og hljóð líka.
Það ætti því að vera auðsótt til löggjafans að fá þessu breytt, fella ljósmyndun út úr iðnlöggjöfinni. Eina sem við þurfum að gera er að vekja athygli á þessum breyttu forsendum. Fleiri starfsgreinar þurfa á ljósmyndum að halda og er kennsla í ljósmyndun orðin hluti af þeirra námi, eins og segir hér að ofan um grafíska hönnun. Mun fleiri stunda líka ljósmyndun sem áhugamál og hafa sótt sér námskeið og stundað sjálfsnám. Það er stjórnarskrárbundinn réttur þessa fólks að fá að starfa við það sem það kýs sér, skaði það ekki almannahagsmuni og það er vandséð að ljósmyndaþjónusta þessa fólks skaði nokkurn nema einokunarstöðu Ljósmyndara.
Kveðja,
Sigurður Jónas Eggertsson