Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ljós við enda ganganna
Föstudagur 20. nóvember 2020 kl. 11:30

Ljós við enda ganganna

Fréttir af væntanlegu bóluefni gegn Covid-19-heimsfaraldrinum og fjöldi nýrra mögulegra atvinnutengdra verkefna, sem nú eru í skoðun eða undirbúningi, koma vonandi til með að draga verulega úr atvinnuleysi og skapa mörg ný störf á Suðurnesjum á næstu misserum. Það er samt líklegt að slíkt taki of langan tíma að mati þeirra sem eru atvinnulausir svo á meðan reyna sveitarfélög og fyrirtæki, með öllum tiltækum ráðum, að fjölga störfum tímabundið með margvíslegum stuðningi ríkisins. Opinberir aðilar eru hvattir til að flýta ýmsum framkvæmdum og verkefnum og ráða til sín fleira fólk.

Þótt verklegar framkvæmdir séu líklegar til skapa fleiri störf fyrir karla en konur má ekki gleyma því að öll slík umsvif leiða af sér margvísleg afleidd störf í verslun og þjónustu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Okkur Íslendingum gengur vel þessa dagana að ná tökum á þessari þriðju bylgju faraldursins sem gengið hefur yfir í haust. Gjaldið sem við greiðum hins vegar fyrir þann árangur er hátt en vonandi tímabundið. Þegar verst lét voru um 40–50 staðfest smit í Reykjanesbæ á hverjum tíma en þegar þetta er ritað, um miðjan nóvember, er hægt að telja staðfest smit hér í bæ á fingrum annarrar handar.

Heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, sjúkraflutningamenn, starfsfólk sem sinnir öldruðum og fötluðum, starfsfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum og fjöldi annarra í framlínustörfum hafa unnið þrekvirki við mjög erfiðar aðstæður. Öllu þessu fólki ber að þakka af heilum hug. Okkur hefur að miklu leyti tekist að halda uppi grunnþjónustu á þessum sviðum en nú standa vonir til að fljótlega verði hægt að bæta í og gera enn betur.

Ef maður reynir að sjá eitthvað gott við þennan heimsfaraldur má nefna að hann hefur dregið fram veikleika víðs vegar í kerfinu, sem nú er hægt að bregðast við, en einnig flýtt framþróun á öðrum sviðum. Má þar til dæmis nefna notkun fjarfundabúnaðar, og því að hægt að draga úr akstri og flugi og þannig nýta tímann betur og draga úr mengun, en einnig að það er hægt fyrir marga að vinna heima með hjálp tækninnar.

Keflavíkurflugvöllur er langstærsti vinnustaður á Suðurnesjum og þegar allt verður komið á fullt þar aftur verður hann það áfram. Flugtengd starfsemi mun áfram þurfa mörg þúsund starfsmenn svo ef við ætlum að draga úr hlutfallslegu mikilvægi flugvallarins þurfum við að fjölga öðrum störfum, ótengdum flugi og ferðaþjónustu, mjög mikið. Um leið þurfum við að fjölga íbúum til samræmis til að hafa á að skipa nægu varanlegu og stöðugu vinnuafli til að sinna nýjum störfum.

Auk þessa er nauðsynlegt fyrir okkur Suðurnesjamenn að fara í víðtækt og samstillt átak í nýsköpun, menntun og að fá fleiri opinber störf á vegum ríkisins flutt til Suðurnesja. Má þar nefna átak sem kallað er „störf án staðsetningar“ og margt fleira. Einnig eru stéttarfélög að hvetja og styðja sína félagsmenn til að nýta tímann og sækja sér margs konar menntun og þjálfun.

Það er því ljós við enda ganganna. Þegar við komumst út úr göngunum mæta okkur bjartari tíð og betri tímar.

Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri í Reykjanesbæ.