Líflegt starf hjá Lundi
Undanfarið hefur verið mikið að gera hjá Lundi, kynningar og fyrirlestrar. Það er ekkert nema gott um það að segja, því ekki veitir af.
Í síðustu viku þáðum við boð um að vera með fyrirlestur og kynningu hjá Lionsklúbbnum í Garði, mættum svo hjá Virkjun á Vallarheiði, og nú á síðast með fyrirlestur hjá Þroskahjálp.
Í janúar komu um 100 manns til Lundar í ráðgjöf, á fyrirlestra og opinn kynningarfund sem er alltaf annan miðvikudag í hverjum mánuði, næst 11.febrúar og hefst hann kl. 18:00
Gestur minn á miðvikudaginn verður embættismaður lögreglunar. Mun hann greina frá þeirri vinnu sem að þeim snýr tengt þessu málefni.
Það vekur enn furðu mína eftir þann tíma sem Lundur hefur starfað hversu fáir koma til viðtals úr fjölskyldum sem orðið hafa fyrir einhverskonar áföllum og/eða búið við erfiðar aðstæður á heimilum þar sem alkahól, fíkniefni og/eða aðrir sjúkdómar hafa verið vandamál, jafnvel staðið í mörg ár eða áratugi. Einstaka sinnum kemur það fyrir að tveir einstaklingar mæta úr sömu fjölskyldu, en yfir höfuð einungis einn. Hinir virðast láta eins og ekkert sé að, allavega kemur það mér þannig fyrir sjónir. Sorglegt til þess að vita.
Eins og ástandið er nú í þjóðfélaginu vona ég svo innilega að þarna verði breyting á.
Þann 17.janúar fórum við á skauta í skautahöll Reykjavíkur, mættu þar 38 manns, höfðum við öll mjög gaman af, fólkið var á öllum aldri.
Fyrirhugað er að fara skíðaferð á vegum Lundar í Bláfjöll í febrúar eða mars.
Hringt verður í þá sem skrá sig í þá ferð með 2-3 daga fyrirvara.
Skráningarblöð liggja frammi í Lundi og Cafe Keflavík. Líka er hægt að skrá sig með því að senda mail á netfangið [email protected]
Nánari upplýsingar gefur
Erlingur Jónsson