Líf íbúa og starfsmanna á hjúkrunarheimilum á tímum kórónuveirunnar
Það má með sanni segja að árið 2020 muni fylgja okkur öllum með nýja reynslu og þekkingu á ógnvaldinum kórónuveirunni um ókomin ár. Líf íbúa á hjúkrunarheimilum landsins breyttist allverulega í vetur þegar kórónuveiran tók að herja á heimsbyggðina alla. Heimsóknarbann var sett á hjúkunarheimilin og reyndist það bæði íbúum og aðstandendum þeirra mjög þungbært. Tæknin var notuð til að hafa samskipti sem létti lífið en kom engan veginn í stað náinna samskipta. Lögð var áhersla á félagslega virkni fyrir íbúa á deildum með ýmsum hætti. Það var spilað, púslað, púttað og horft á gamlar íslenskar myndir. Við sáum að íbúarnir voru duglegri að koma og dvelja í samrýmum hver með öðrum, það myndaðist meiri nánd og mikill samhugur á milli þeirra. Íbúunum fannst fátt í sjónvarpi eða blöðum á þessum tíma annað en fréttir af vágestinum mikla og voru orðnir frekar leiðir á umræðunni. Gluggaheimsóknir urðu tíðar á þessu tímabili og léttu íbúum lífið. Mörg góðhjörtuð samtök studdu heimilin á þessum erfiðu tímum með góðum gjöfum til eflingar á félagslegri virkni og erum við óendanlega þakklát fyrir þann góða stuðning og hlýhug sem okkur var sýndur.
Líf starfsmanna breyttist einnig á augabragði. Ótti og kvíði herjaði á okkur og sú hugsun sem allt snerist um var að vernda íbúana okkar. Lífstíllinn sem við tileinkuðum okkur var að sinna vinnunni, fara heim og í gönguferðir og svo aftur til vinnu. Starfsfólk var í heimasóttkví á milli vakta og sumir fóru jafnvel ekki út í búð. Enginn vildi vera sá sem bæri veiruna með sér inn á stað þar sem viðkvæmasti hópurinn bjó. Þetta var erfitt fyrir margar fjölskyldur og börn starfsmanna.
Þegar voraði varð ástandið aðeins betra og við fórum að sjá til sólar. Hægt var að opna aðeins fyrir heimsóknir og það var dásamlegt að upplifa spennuna bæði hjá íbúum og aðstandendum þeirra þegar endurfundirnir áttu sér stað. Um tíma í sumar vorum við komin í okkar gamla horf og héldum að við fengjum frí frá veirunni. Við héldum góða sumargleði fyrir íbúa þar sem við buðum upp á grillmat og söngskemmtun. Það var dásamlegt að gleyma sér í gleðinni en því miður var þetta skammvinn gleði og aftur þurfti að grípa í takmarkanir. Það var erfitt. Við fundum að fólk var orðið þreytt – íbúar, starfsfólk og aðstandendur. En við getum ekki andað rólegar fyrr en búið verður að bólusetja íbúana okkar. Lífið okkar starfsmannanna er aftur komið í sama horf og í vetur þar sem heimasóttkví tekur við eftir vinnu. Starfsfólk hjúkrunarheimila og sjúkrastofnana á hrós skilið fyrir sitt framlag á þessum fordæmalausu tímum.
Þegar við lítum til baka og skoðum þennan tíma þá sjáum við að veikindi á meðal íbúa voru ekki eins mikil og í venjulegu árferði. Sýkingum fækkaði og veikindi á meðal starfsfólks urðu minni. Líklegar skýringar á þessu eru að umgangur var minni um heimilin, starfsfólk fór minna út á meðal fólks og vegna aukinna sóttvarnarráðstafana.
Hugur minn dvaldi ansi oft á þessum tíma hjá aðstandendum sem ekki gátu komið og verið með sínum ástvinum. Þetta reyndi verulega á alla. Þakklæti til allra aðstandenda er mikið fyrir allan skilninginn og þolinmæðina. Þeir aðstandendur sem komu með íbúa sína inn á heimilin til dvalar á þessum tímum upplifðu sérstakar tilfinningar. Þeir upplifðu það að skutla ástvini inn á heimilið og loka hann inni. Öll getum við sett okkur í þessi erfiðu spor. Hvaða tilfinningar sækja á í þessum aðstæðum, sorg og söknuður.
Þetta er ekki búið, eins og sagt er í auglýsingunni. Sýnum öll samfélagslega ábyrgð til verndar okkur sjálfum og öllum öðrum í leiðinni með því að viðhafa góðar sóttvarnir til framtíðar.
Þuríður Ingibjörg Elísdóttir,
forstöðumaður Hrafnistu, Nesvalla og Hlévangs.