Líðan framhaldsskólanema og farsæld þeirra
Töluverð vitundarvakning hefur orðið varðandi geðheilbrigðismál og þau eru ekki eins mikið feimnismál og áður. Unnið hefur verið ötullega að því að brjóta niður þær hindranir sem áður stóðu í vegi fyrir að fólk leitaði sér aðstoðar og er þjónustan orðin sýnilegri og aðgengilegri.
Á kynningarfundi fyrir foreldra/forráðamenn sem haldin var hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja þann 5. september ræddi Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Planet Youth meðal annars um niðurstöður rannsókna meðal framhaldsskóla á Íslandi frá árinu 2021. Niðurstöður sýndu að andlegri líðan framhaldsskólanema hefur hrakað síðastliðin ár. Árið 2021 greindu 35% stúlkna að andleg heilsa þeirra væri góð eða mjög góð samanborið við 53% árið 2018 og 57% árið 2016. Á meðal drengja sem sögðu andlega heilsu sína góða eða mjög góða var hlutfallið örlítið hærra eða 58% árið 2021 samanborið við 68% árið 2018 og 74% 2016.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að pressa á námsárangur sé ein skýring, þ.e. að nemendur setja of mikla pressu á sig og eru hræddir við að gera mistök sem síðar getur leitt til fullkomnunaráráttu. Sumir nemendur vinna talsvert samhliða skóla en vilja standa sig vel náminu. Þetta skapar oft mikla pressu og togstreitu því þeir hafa í raun ekki almennilegan tíma til að sinna náminu eins og þörf er á. Notkun samfélagsmiðla og mikill skjátími tengist einnig andlegri vanlíðan, þar sem stöðugur samanburður við aðra og neteinelti er töluvert áhyggjuefni. Félagsleg einangrun, einmanaleiki, veikt stuðningsnet og tími breytinga eru einnig taldir vera skýrandi þættir. Misjafnt er hvernig okkur tekst að komast yfir upplifunina á sem farsælastan hátt. Flestum tekst vel úr hendi þar sem aðstæðurnar kalla á ný tækifæri til vaxtar en slíkt er alls ekki raunin hjá öðrum.
Framhaldsskólaárin er mikilvægur tími í lífi unglinga og sá tími sem aukinn þroski, sjálfsþekking og félagsmótun á sér stað. Þessi tími getur jafnframt verið krefjandi fyrir marga og er kvíði algengt vandamál á þessum aldri. Sumir búa yfir árangursríkum aðferðum til að takast á við slík einkenni, hafa sterkt stuðningsnet, gott sjálfsmat auk færni til að leysa vanda á áhrifaríkan hátt. Á meðan gætu aðrir þurft aukinn stuðning, svo sem ráðgjöf eða meðferð. Því er mikilvægt að greina milli þess sem telja má eðlilegur kvíði og óhóflegur kvíði.
Kvíði er eðlileg tilfinning sem allir upplifa af og til. Það getur verið allt frá vægum áhyggjum til alvarlegra og getur haft í för með sér aukna streitu, óvissu og stuðlað að neikvæðum lífsvenjum. Kvíði þjónar sem varnarviðbragð og gerir okkur viðvart um hugsanlegar ógnir eða áskoranir í umhverfi okkar. Kvíði getur leitt til betri árangurs við að þreyta próf, leysa ákveðinn vanda eða takast á við áskoranir lífsins. Einnig getur hann verið hluti af persónulegum vexti og sumir nemendur upplifa kvíða í nýjum aðstæðum þar sem þær kalla á ný vináttusambönd og félagsleg samskipti. Ofangreind dæmi er lýsing á kvíða sem er „eðlilegur“ það er eðlilegt að kvíða óþekktum og nýjum áskorunum og getur beinlínis verið gagnlegt.
Óhóflegur kvíði er hins vegar þegar einstaklingar upplifa miklar og óstjórnlegar áhyggjur sem eru ekki í samræmi við aðstæður. Líkamleg einkenni geta gert vart við sig, s.s. hjartsláttaróregla, grunn öndun, sviti, skjálfti, vöðvaspenna og magaverkir auk svefnvanda. Einnig er hætta á að þróa með sér ákveðna forðunarhegðun og forðast aðstæður og athafnir sem gætu kallað fram þessi kvíðaeinkenni. Slík forðun dregur úr virkni og getu einstaklings til að sinna daglegum athöfnum, gegna skyldum gagnvart námi, t.d. í formi skólaforðunar og viðhalda vina- og fjölskyldutengslum. Kvíðaástand er mislangt hjá hverjum og einum, ef ekkert er að gert getur það varið yfir í langan tíma og afleiðingar verið hamlandi og alvarlegar.
Með því að bera kennsl á, meta og finna leiðir sem henta hverjum og einum nemenda er hægt að hjálpa þeim að bera kennsl á neikvætt hugsanamynstur, hugsa í lausnum, efla styrkleika, byggja upp seiglu og þróa þá færni sem þarf til farsældrar framtíðar. Með aukinni þekkingu á ofangreinda þætti verða nemendur virkir í að leysa sín eigin vandamál og yfirstíga hindranir. Líkamleg heilsa gegnir mikilvægu hlutverki í andlegri vellíðan. Skólinn er heilsueflandi og hvetur nemendur til að viðhalda heilbrigðum lífsstíl, þar á meðal með reglulegri hreyfingu, hollu mataræði, nægum svefn og hófstilltri skjánotkun sem getur hjálpað til við að draga úr kvíðaeinkennum.
Fyrsta skref í að takast á við andlega vanlíðan er oftast að leita aðstoðar, fá speglun og tækifæri til að ræða líðan sína og hugsanir í öruggu umhverfi. Hjá FS er slík þjónusta í boði þar sem nemendur geta fengið tíma hjá félagsráðgjafa til að ræða sínar áskoranir og velta fyrir sér möguleikum í stöðunni í trúnaði, t.d. hvort kvíði sem er til staðar sé hamlandi eða eðlilegur miðað við aðstæður. Ef þörf er á frekari þjónustu, en þeirri sem hægt er að veita innan veggja skólans, er gott samstarf við aðrar stofnanir, s.s. Heilbrigðisþjónustu Suðurnesja og félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir,
félagsráðgjafi hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.