Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ
Ágæti frambjóðandi 2014 til bæjarstjórnar í Reykjanesbæ. Hver er ÞÍN framtíðarsýn varðandi leiguíbúðir í bæjarfélaginu?
Hef sjálf búið í leiguíbúð á Ásbrú í tvö ár og líkar vel. Eitt stingur þó í augun - allar tómu íbúðablokkirnar sem góna á mig líflausum gluggum um allt hverfið. Í sumar sendi ég tölvupóst til Kadeco og spurðist tveggja spurninga og fékk meðfylgjandi svör.
1. Hvað eru margar íbúðir alls hér á Vallarsvæðinu og hve margar eru í notkun?
Svar - Varnarliðið skildi eftir 1.952 íbúðir – alls um 204 þús. ferm. Þar af 904 fjölskylduíbúðir, 3ja herbergja og stærri – 1.022 einstaklingsíbúðir, herbergi með sameiginlegri aðstöðu - hótelíbúðir, svefnherbergi og stofa með eldhúskrók. Íbúafjöldi á Ásbrú getur verið um 6.000 manns. Í dag búa á milli 1.800 til 2.000 manns á svæðinu - erfitt að nefna nákvæma tölu – nemendur sem þurfa ekki að breyta lögheimili sínu eru meirihluti leigjenda. Um 700 íbúðir eru í leigu.
2. Eru áform uppi um að gera fleiri íbúðir upp og leigja þær út eða selja?
Svar - Vangaveltur hafa verið um hvenær sé best að setja fleiri íbúðir á markað og færa má fyrir því sterk rök að sá tími sé akkúrat núna þar sem leigjendur standa frammi fyrir skorti á leiguhúsnæði. Engin ákvörðun verið tekin af okkar hálfu - nokkrar íbúðir verið teknar í notkun fyrir starfsmenn fyrirtækja á svæðinu.
Háskólavellir sem er einkaaðili, á stærsta hluta íbúðanna á svæðinu, hef því miður ekki upplýsingar um hvað þeir hyggjast gera.
Niðurstaða MÍN sem fyrirspyrjanda - 1.952 íbúðir alls á Ásbrú – um 700 í útleigu – um 1.000 til 1.200 íbúðir TÓMAR.
Sem sagt rúmlega 1.000 TÓMAR ÍBÚÐIR hér á Ásbrú – einstaklings og fjölskylduíbúðir. Skortur á leiguhúsnæði er æpandi hér á Suðurnesjum og á landinu ÖLLU.
Ágæti frambjóðandi - hver er ÞÍN framtíðarsýn varðandi leiguíbúðir í bæjarfélaginu. Munt þú leggja til að stofnað verði fyrirtæki sem leigir út hentugar íbúðir á almennum og félagslegum markaði? Þúsund möguleikar á Ásbrúnni – fyrir utan allt íbúðarhúsnæðið sem peningastofnanir eiga tómt víðsvegar um Reykjanesið. Svör óskast birt hér í Víkurfréttum.
Hólmfríður Bjarnadóttir.
[email protected]