Leiðsögunám á Reykjanesi
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Menntaskólinn í Kópavogi skrifuðu undir samstarfssamning á dögunum um framkvæmd Svæðisbundins leiðsögunám á Reykjanesi. MSS sér um framkvæmd námsins með aðstoð og faglegu eftirliti frá Menntaskólanum.
Það eru 6 ár síðan síðasta útskrift var hjá MSS í Svæðisbundnu leiðsögunámi og tími til kominn að námið fari af stað aftur. Að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanns MSS hefur útskriftarhópurinn frá árinu 2005 látið til sín taka í ferðaþjónustu á Suðurnesjum og má þar nefna gönguferðir Rannveigar Garðarsdóttur, SJF menningarmiðlun sem hefur staðið fyrir gönguferðum og sagnakvöldum, bækur hafa verið gefnar út um þjóðsögur á Reykjanesi og ófáar ferðir sem Reynir í Fræðasetrinu hefur farið með ferðamenn og fleira væri hægt að nefna. Það verður spennandi að sjá hvað kemur úr þeim hóp sem fer í námið núna.
Megináhersla í náminu er á náttúru, menningu og sögu Reykjanesskagans og nágrennis, auk þess sem áhersla er lögð á leiðsögutækni og hagnýta þjálfun fyrir starfið í vettvangsferðum. Námið er áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa sem leiðsögumenn á Reykjanesi og nágrenni, það nýtist einnig vel þeim sem starfa nú þegar í greininni, m.a. starfsfólki ferðaskrifstofa, upplýsingamiðstöðva, hópferðafyrirtækja, í gestamóttöku og þeim sem einfaldlega vilja bara læra meira um svæðið.
Námið er samtals 22 einingar og skiptist í tvennt: Kjarna og svæðisbundið leiðsögunám. Nám í kjarna er 17 einingar. Nám í svæðisþekkingu eru 5 einingar og felur í sér sérhæfingu á Reykjanesi. Áætlað er að þeir nemendur sem hafa lokið bæði kjarna og svðisbundinni leiðsögn útskrifist í júní 2012. Einnig er hægt að skrá sig í einstaka áfanga.
Umsóknarfrestur er til 9. september og er áætlað að kennsla hefjist í enda september. Kennt verður tvö kvöld í viku frá kl. 18:00 til 22:00, auk þess verða farnar vettvangsferðir einstaka laugardaga. Skráning er hafin á www.mss.is.
Mynd:Margrét Friðriksdóttir skólameistari Menntaskólans í Kópavogi og Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður MSS handsala samstarfssamning vegna náms í Svæðisbundnu leiðsögunámi á Reykjanesi.