Leiðislýsing á 4500 krónur: Ætlum ekki að láta bjóða okkur þetta
Alveg með ólíkindum verðhækkunin á milli ára, skil ekki hvernig þeir fá það út að hækkunin sé 700 krónur + vsk á milli ára þegar það kostaði 1800 krónur í fyrra og 1500 árið þar áður að láta tengja ljós á leiði og láta það loga yfir jólin. Ætli sé hægt að fá þetta reikningsdæmi i hendurnar?
Hef verið að spyrjast fyrir um þetta mál og skilst að það hafi nýr aðili tekið við þessu í ár, það á greinilega að vera slatta gróði fyrir þann sem sér um þetta núna, hvernig væri að hafa uppi á þessum sem voru þarna áður og bjóða þeim að koma aftur, eitthvað talað um að þeir hafi þurft að víkja fyrir þessum nýja.
Móðir mín var stödd í Keflavíkurkirkjugarði í fyrradag, ætlaði að lýsa upp leiði lítils engils, var með 2500 krónur á sér í seðlum, hún varð frá að hverfa enda ekki með nægilegt fé á sér - ætlum ekki að láta bjóða okkur þetta.
Það væri gaman að vita hvort maður fái afslátt ef maður kemur á Þorláksmessu til að láta tengja og einnig væri gott fyrir alþjóð að vita að hægt er að kaupa mjög fallega krossa sem ganga fyrir rafhlöðum á 2990 krónur út úr búð. Reyndar líklegt að það þurfi að skipta um rafhlöður eftir 2 vikur en hann er margnota og því strax búinn að borga sig upp miðað við þennan 4500 krónu kostnað.
Ingibjörg Kristinsdóttir