Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Leggur þú af stað í haust?
    Úr fjallgöngu.
  • Leggur þú af stað í haust?
    Særún Rósa Ástþórsdóttir.
Föstudagur 27. júní 2014 kl. 14:00

Leggur þú af stað í haust?

– Særún Rósa Ástþórsdóttir skrifar.

Það að hefja nám má líkja við að leggja af stað í fjallgöngu eða takast á við nýtt verkefni sem ekki hefur verið hluti af daglega lífinu. Þegar lagt er af stað hvílir óvissa yfir komandi verkefni og ef fjallið er alveg nýtt er óvíst hvað bíður manns þegar komið er á toppinn.

Fyrsta alvöru fjallgangan mín stóð í sjö klukkutíma og að henni lokinni hafði ég farið yfir fimm tinda. Ég gekk af stað með góðum vinum, í góðum gönguskóm með eitthvað af nesti og klár í slaginn. Við vinirnir höfðum oft horft á þessa fjallaskeifu og hugsað með okkur að ganga eftir henni allri án þess að vita í raun hvernig leiðin yrði, hversu lengi við yrðum að ganga og hvað biði okkar uppi á toppnum. Við komumst fljótt að því að margt var ólíkt því sem við höfðum búist við; fjallsbrúnin sem virtist svo auðveld var stórgrýtt og mun erfiðari yfirferðar en klifrið upp brattann sem ég hafði hræðst áður en við fórum af stað. Um miðbik skeifunnar var ég við það að snúa við og hætta við allt saman en skynsemin réði för, enda lítið vit í að ganga jafn langa leið til baka í stað þess að horfa fram á við og halda áfram veginn. Auk þess var löngunin til þess að klára og komast á leiðarenda uppgjöfinni sterkari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í fjallgöngu öðlast maður nefnilega nýtt sjónarhorn á umhverfið og sér allt í einu hina hliðina, sem áður var falin auganu. Allt í einu verður það sem virtist óyfirstíganlegt ekki eins risavaxið og áður. Sú var raunin í fimm tinda ferðalaginu og eftir gönguna voru komin fram plön um næstu göngu og fleiri tinda. Ég er ekkert feimin við að viðurkenna að þetta var mjög erfið ferð og ég átti ekki mikla orku eftir þegar niður var komið. Á stundum var ég við það að öskra eða leggjast niður og gefast upp en svo færði gangan mér óvænta gleði í dúnamjúku rúmi búnu til úr mosa eða klettagjá þar sem krummar höfðu varpstað og þá gleymdust erfiðu steinaklappirnar sem ætluðu engan endi að taka.

Á göngunni varð mér margoft hugsað til nemenda minna sem höfðu lagt í ekki ósvipaða för með því að fara í skóla sem fullorðnir námsmenn. Sá sem byrjar í námi á fullorðinsárum stendur einmitt í þessum sporum. Hann hefur tekið ákvörðun um að leggja af stað og undirbúið sig eins og hægt er en það ríkir óvissa í loftinu og blendnar tilfinningar um ferðina framundan. Óvissuþátturinn í fjallgöngunni var einmitt nokkur og það var spennandi að fara af stað án þess að vita nákvæmlega hvað biði handan við næsta ás. Þegar nemendur koma í fyrsta sinn í nám hjá MSS nefna þeir oft að þeir ætli að sjá til hvort þeir haldi áfram eða hvað þeir geri með námið í framtíðinni. Þeir eru óvissir um eigin getu og hvort nám sem slíkt sé eitthvað sem hentar þeim, þangað til þeir komast yfir fyrsta ásinn og forvitnin vaknar. Þegar maður stendur uppi í fjallshlíð og horfir yfir mikilfenglegt landslagið verður spennandi að skoða fleiri staði, komast upp á fjöllin í grenndinni og sjá hvaða áhrif þau hafa á mann. Því fylgir sömuleiðis mikil vellíðunartilfinning að hafa áorkað einhverju sem maður hefur áður efast um að væri mögulegt.

Í haust leggjum við hjá MSS af stað með nemendum okkar, upp í hlíðar og yfir ása í ýmsum námsleiðum. Þar er okkar hlutverk að leiða og styðja að áfangastað, vera sá sem hvetur á hliðarlínunni og hugar að öryggisatriðum. Og að sjálfsögðu fagna innilega þegar toppnum er náð.
Á heimasíðu MSS finnur þú fjöllin, ferðamöguleikana og farastjóra með fjölbreytta reynslu sem eru klárir í að takast á við fjallgönguna með þér, hvort sem fyrsta skrefið er stórt eða smátt. Hlökkum til ferðarinnar með þér!

Særún Rósa Ástþórsdóttir
Verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum