Leggjum rækt við Garðinn
Það var sólríkt í Garðinum á sunnudag þegar Sjálfstæðismenn og óháðir opnuðu kosningaskrifstofuna. Frambjóðendur tóku vel á móti gestum og íbúum Garðs með glæsilegu kökuhlaðborði. Margt var um manninn á opnuninni og á tíma var fullt út úr dyrum.
Á listanum er nýliðun nokkuð mikil og ungt fólk talsvert stór hluti. Einnig eru einstaklingar á listanum sem hafa mikla reynslu af bæjarmálunum .Það felst mikil jákvæðni og von í því að unga fólkið sé tilbúið að leggja sitt af mörkum fyrir bæinn sinn, læra af þeim sem hafa reynsluna en jafnframt koma með nýjar áherslur. Hér er um að ræða öflugan hóp sem er tilbúinn til að leggja rækt við Garðinn.
Það þarf að leggja alúð, dugnað og sál til að garður blómstri. Til þess að rækta garð þarf að vita hvernig garðurinn á að vera, undirbúa, skipuleggja, ræða við sérfræðinga og áhugamenn og hafa vilja og metnað til að hann blómstri. Jafnframt er mikilvægt að halda garðinum vel við svo hann fari ekki í órækt. Sveitarfélagið Garður þarf á einstaklingum að halda sem hafa áhuga og vilja til að starfa af alúð í þeim fjölmörgu verkefnum sem það stendur frammi fyrir. Vitneskju um hvert skal halda, skipuleggja og fá hugmyndir frá íbúum og sérfræðingum sem nýtast bæjarfulltrúum og starfsfólki við uppbyggingu í bænum. Mikilvægur liður í uppbyggingunni er að fylgja málefnum eftir, styðja stofnanir og starfsfólk til að hámarka gæði og árangur.
Á lista sjálfstæðismanna og óháðra er fjölbreyttur hópur fólks sem er tilbúinn til að leggja rækt við Garðinn með íbúum og starfsfólki bæjarins til heilla í nútíð og framtíð.
Garðræktin verður að vera skemmtileg með það að markmiði að byggja upp þann garð sem hægt er að vera stoltur af og geta sagt „þetta er Garðurinn minn“ .
Á næstu vikum munu viðburðir sem frambjóðendur standa fyrir vera auglýstir á fésbókinni, https://www.facebook.com/xd.gardi en líka með dreifimiðum í hús. Fyrst á dagskrá eru opnir vinnufundir þar sem íbúar Garðs eru boðnir velkomnir að gerð stefnuskrá flokksins. Snörp hugmyndavinna verður í dag þriðjudag kl. 20:00 og aftur á föstudag á sama tíma.
Íbúar Garðs eru hvattir til að mæta og láta skoðanir sínar í ljós í léttu spjalli við frambjóðendur.
Kær kveðja frá frambjóðendum sjálfstæðismanna og óháðra,
XD - Leggjum rækt við Garðinn.