Leggjum læsi lið – Evrópudagur talþjálfunar
Bryndís Guðmundsdóttir skrifar.
Í Evrópu halda talmeinafræðingar upp á dag talþjálfunar 6. mars. Á þessum tímamótum leggum við áherslu á að fræða um störf okkar og þann samfélagslega ávinning sem fagþekking okkar getur lagt af mörkum.
Íslenskir talmeinafræðingar eru í auknum mæli að koma þekkingu og reynslu á framfæri með vönduðu greiningar- og þjálfunarefni sem metur undirstöðuþætti í málþroska, m.a. lesskilningi og hljóðkerfisþáttum sem rannsóknir sýna að skipta mestu máli til undirbúnings læsi. Við komum með okkar nálgun í góðu samstarfi við menntasamfélagið og foreldra.
Undirrituð hefur þróað og gefið út þjálfunarefni sem sérstaklega er ætlað barnafjölskyldum og skólum til að laða fram réttan framburð hljóða um leið og þættir í hljóðkerfisvitund eru þjálfaðir sem styrkja læsi. Síðla árs 2013 kom út fyrsta íslenska smáforritið á þessu sviði ,,Lærum og leikum með hljóðin” þar sem íslensku málhljóðin eru kynnt með skemmtilegri fyrirmynd, í sömu röð og íslenskumælandi börn tileinka sér þau. Börn læra heiti bókstafs og hljóðs, hvernig mynda skal hljóðið og æfa það svo í hljóðatengingum, orðum og setningum, til að tryggja réttan framburð og góðan orðaforða.
Í nóv. 2014 komu svo smáforritin; Froskaleikur 1,2, 3 og Froskaleikur – Skólameistarinn, út í vefverslun Apple. Byggt er á sögunni um Hoppa frosk sem missir málið þegar galdrakarl leggur á hann álög. Í leitinni að lausn þjálfa börn markvisst undirstöðuþætti fyrir læsi á gagnvirkan hátt í froskaleikjunum.
Öll smáforritin eru nú á sérstöku tilboði fyrir heimili og skóla, eða með 70 % afslætti í tilefni af Evrópudegi talþjálfunar og nýrri uppfærslu á smáforritinu ,,Lærum og leikum með hljóðin”.
Læsi er grundvöllur þekkingar
Lesskilningur fer minnkandi í OECD löndum heims og leita skólamenn og samfélög leiða til að breyta kennsluháttum, því til framtíðar er læsi grundvöllur að þekkingu. Lesskilningur unglinga á Íslandi hefur farið versnandi frá árinu 2000. Um 30 % drengja lesa sér ekki til gagns. Tölvur og gagnvirk nálgun í leikjaformi smáforrita hentar drengjum vel til að undirbúa læsi. Sóknarfæri eru jafnframt í aðstoð við nemendur sem eru af erlendum uppruna því þau standa mun verr en islensk börn sbr. PISA 2012.
Erlendir nemendur sem hafa farið í gegnum Lærum og leikum með hljóðin, læra að bera hljóðin fram rétt, tengja hljóð og bókstaf og þjálfast í hljóðkerfisvitundarþáttum sem rannsóknir sýna að færast yfir á önnur tungumál (Wren, Y., Hambly, H. & Roulstone, S., 2013). Þá sýna rannsóknir Gillon (2010) að sérstaklega þarf að gefa börnum með slaka félagslega stöðu og drengjum, gaum varðandi læsi. Sérstaklega þarf að skoða börn með framburðarfrávik, slæma hljóðkerfisvitund og seinkun í málþroska.
Ávinningur samfélags
Ávinningur samfélags sem stuðlar að því að öll börn séu vel læs og hafi góðan lesskilning við lok skólaskyldu skilar sér ekki eingöngu í samkeppnishæfu þekkingarsamfélagi heldur einnig í hæfari einstaklingum og meiri jöfnuði þar sem allir hafa sömu tækifæri til náms og atvinnu. Ný rannsókn frá Duke University í Bandaríkjunum sem tók yfir 13 ára tímabil þar sem gögn frá 100 sýslum í Norður Karólínu voru skoðuð, sýndi að barn sem var í góðu leikskólaúrræði með góðri örvun á málþroska og framburði m.a. skólar fyrir félagslega illa staddar fjölskyldur, minnkuðu líkur á því að barn þyrfti sérkennslu við 8 ára aldur um 39 % sem minnkaði kostnað fylkisins talsvert (Muschkin, C. 2015).
Sérfræðiþjónusta skóla á Íslandi, með sérúrræðum er mismunandi eftir sveitarfélögum en algengt er að hlutfall sé allt að 30% af kostnaði sem sveitarfélag ver í þennan málaflokk eingöngu. Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði; James J.Heckman (2013) og fleiri fræðimenn hafa sýnt fram á þjóðhagslegan sparnað af því að samfélög leggi áherslu á snemmtæka íhlutun þar sem gert er ráð fyrir því að fyrstu árin sé mikilvægast að leggja grunn að vitrænum þroska, læsi og námi barna.
Langtímarannsóknir Heckman (Giving every child a fair chance. 2013) á hagrænum áhrifum af sértækum úrræðum fyrir hóp barna í áhættu sýna t.d. að fyrir hverja krónu sem samfélag veitir í vönduð leikskólaúrræði með áherslu á góðan málskilning og læsi, sparast sjö krónur í margvíslegum félagslegum kostnaði skattgreiðenda síðar. Samfélagslegur ávinningur er því töluverður þegar það tekst að stuðla að góðum málþroska og læsi. Þá eru mikil verðmæti fólgin í því fyrir lítið málminnihlutasamfélag eins og Ísland að styrkja stöðu tungumálsins, menningarverðmæta okkar, með því að eiga aðgang að vönduðum smáforritum sem verja og viðhalda íslenskunni.
Bryndís Guðmundsdóttir
talmeinafræðingur hjá Raddlist ehf. og Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar