Látum ekki ljúga að okkur
Við göngum til kosninga laugardaginn 28. október vegna enn eins spillingarmáls Sjálfstæðisflokksins. Það er löngu ljóst að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til þess að stjórna landinu okkar.
Á Íslandi eru innviðir að grotna niður undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, það er góðæri á Íslandi sem sumir finna fyrir, laun hafa hækkað hratt á undanförnum árum og samkvæmt Sjálfstæðisflokknum hafa flestir það gott í dag.
Þetta er rangt, þó að laun hafi hækkað þá hefur kaupmáttur láglaunafólks aukist miklu minna en annarra þar sem Sjálfstæðisflokkurinn passar sig á því að hækka skatta eða eyðileggja barna- og vaxtabótakerfi á láglaunahópa ef laun hækka. Þetta er gert til þess að lækka skatta á þá tekjumeiri, fyrirtæki sem t.d. nýta auðlindirnar okkar allra eða þá sem eiga hundruðu milljóna í eignum.
Öll vitum við það að spítalinn í Keflavík er undirfjármagnaður, heilsugæslan er ekki að þjónusta okkur nægilega vel, Fjölbrautaskólinn fær ekki nægilegt fé til að reka sig almennilega og það er löngu tímabært að klára að tvöfalda Reykjanesbrautina og laga Grindavíkurveginn svo einhver dæmi séu tekin.
Leið Sjálfstæðismanna til að fjármagna hluti er að skattleggja láglaunafólk, skattleggja ferðaþjónustuna sem núna er í vandræðum vegna t.d sterkrar krónu og setja vegtolla á Reykjanesbrautina, fyrst þarf auðvitað að svelta kerfið og reyna að koma þessum verkefnum á einkaaðila svo einstaklingar út í bæ geti grætt á grunnþjónustu ríkisins. Þessar hugmyndir hafa allar komið fram í fjárlagafrumvarpinu sem ríkisstjórnin, sem nú situr sem starfsstjórn, hefur lagt fram fyrir árið 2018 eða hugmyndir beint frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.
Vinstri græn vilja fara aðra leið. Það þarf ekki að hækka skatta á venjulegt fólk, það þarf ekki að setja á vegtolla og það þarf ekki að skattleggja ferðaþjónustuna eins mikið og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera. Það er hægt að fjármagna þessi verkefni með því að hækka skatta á þá sem hafa yfir 25 milljónir í árslaun, þá sem eiga mörg hundruð milljónir í peningum og eignum, með komugjöldum og með því að fá sanngjarnan arð af auðlindum okkar eins og fyrir fiskinn og rafmagnið. Látum Sjálfstæðisflokkinn ekki ljúga að okkur. Sjálfstæðisflokkurinn er raunverulegur skattaflokkur Íslands.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætti kannski aðeins að líta í eigin barm áður en hann talar fyrir þessar kosningar. Hann situr í ríkisstjórn sem hefur hækkað skatta á láglaunafólk, öryrkja og aldraða. Hann hefur kosið með því á Alþingi að frítekjumark aldraða var lækkað í 25.000 þúsund krónur í stað þess sem frítekjumarkið var áður eða 100.000 krónur. Ásmundur hefur líka kosið tvisvar sinnum á móti því á Alþingi að kjör aldraðra og öryrkja verði leiðrétt afturvirkt.
Ásmundur reynir svo að telja fólki trú um það að hælisleitendur kosti samfélagið of mikið og þess vegna er ekki hægt að gera meira fyrir það, þegar að í raun er það Ásmundi Friðrikssyni sjálfum og stefnu Sjálfstæðisflokksins að kenna að láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar hafi það ekki betra.
Það er ekkert mál fyrir okkur sem samfélag að stoppa við hérna og skipta um stefnu. Það er dýrt fyrir okkur að láta innviðina grotna niður. Hefjumst handa við að byggja innviðina upp. Hefjumst handa við að gera samfélagið okkar sanngjarnara. Hefjumst handa við að skapa samfélag þar sem allir geta lifað sómasamlegu lífi, en ekki bara sjálfskipuð elíta sem skammtar sér og sínum miklu meira en nóg.
P.S. Eins og Ási Friðriks segir svo oft, við þurfum að þora að taka umræðuna, núna er ég að taka umræðuna um það hvernig Ásmundur Friðriksson og Sjálfstæðisflokkurinn níðist á þeim sem minna hafa á milli handanna.
Benóný Harðarson
Stjórnmálafræðingur og stuðningsmaður VG