Landsnet í línudansi
Eftir fyrri höfnun Sandgerðis á háspennulínum um Ósabotna og Stafnes fór af stað merkileg atburðarás. Forstjóri Landsnets tjáði sig í Morgunblaðinu þar sem sem haft var eftir honum í áberandi fyrirsögn að aðeins loftlínur tryggi fullt afhendingaröryggi fyrir álver. Forstjórinn sagði álver ekki þola nema nokkurra klukkutíma straumrof og að þannig öryggi sé ekki unnt að tryggja nema með loftlínum. Allt var þetta sett fram án nokkurra fyrirvara af hans hálfu.
Eftir þessa umfjöllun gerði Landsnet aðra tilraun til þess að sannfæra Sandgerðinga um mikilvægi loftlínu. Ef marka mátti orðin var augljóslega mikið í húfi og valkostirnir skýrir; loftlínur og álver eða ekkert álver í Helguvík. Bæjarstjórnin í Sandgerði staðfesti engu að síður fyrri ákvörðun sína og hafnaði loftlínum (aftur). Á dögunum höfnuðu Grindvíkingar nýjum línuleiðum í sínu landi. Við það tilefni rifjaði ég upp orð forstjórans og benti á að ef marka mætti orð hans þá væru forsendur álvers í Helguvík brostnar þar sem loftlínur væru ekki í boði, a.m.k. ekki alla leið. Í kjölfarið birtist frétt á heimasíðu Landsnets og þar er sagt; „fráleitt að tala um að forsendur fyrir álveri í Helguvík hafi breyst“. Hér blasir við þversögn í málflutningi Landsnets, nú þegar ljóst er að loftlínur er ekki valkostur alla leið talar Landsnet þvert á fyrri ummæli.
Lína fyrir fólk eða álver?
Nú segir Landsnet að hvort sem af fyrirhuguðum framkvæmdum verður eður ei þá þurfi nýja hápspennulínu til Suðurnesja. Aftur talar Landsnet í nafni afhendingaröryggis. Að þessu sinni er vandamálið að ef núverandi lína bilar „verður orkuframleiðslan á svæðinu mun meiri en orkueftirspurnin, sem hefur í för með sér stórauknar líkur á raforkutruflunum“, sbr. frétt á vef Landsnets. Hversvegna skyldi það nú vera? Jú, það mun vera Reykjanesvirkjun sem framleiðir rafmagn fyrir álver Norðuráls á Grudartanga sem veldur því að orkuframleiðslan á Suðurnesjum er mun meiri en eftirspurnin. Það er því sama hvernig teningnum er snúið háspennulínurnar sem eru til umræðu eru vegna álvers, eða álvera, Norðuráls. Annarsvegar vegna álvers Norðuráls á Grundartanga og hinsvegar vegna hugsanlegs álvers í Helguvík.
Álver í Helguvík þyrfti tvær stórar 220 kV háspennulínur samhliða litlu 132 kV línunni sem nú liggur eftir Strandaheiði sunnan við Reykjanesbraut. Stóru línurnar tvær myndu einnig fara inn að Trölladyngju austan við Keili. Þá eru ótaldir orkuflutningar innan Reykjanesfólkvangs en of langt mál er að taka þá umræðu hér eins alvarleg og hún er. Ef bæta ætti afhendingaröryggi fyrir íbúa á Suðurnesjum þyrfti mun fyrirferðarminni mannvirki en hér er lagt upp með. Leiðaval og lausnir í þeim efnum væri eðlilegt að skoða óháð áformum um stóriðju í Helguvík, ef þá á annað borð er tilefni til úrbóta í þeim efnum.
Álver eða stöðnun?
Það hefur verið látið í það skína að ef ekki komi háspennulínurnar sé verið að loka á alla nýtingarmöguleika. Netþjónabú hafa verið nefnd til sögunnar í því samhengi. Sú framsetning er heldur hæpin. Netþjónabú þurfa ekki höfn. Þau er hægt að staðsetja í námunda við virkjanirnar og þá þarf ekki að flytja orku langar leiðir. Þess í stað myndu menn flytja gögn með niðurgröfnum ljósleiðurum. Fyrir netþjónabú, af hóflegri stærð, þarf að virkja einhverja tugi MW en ekki 500 MW eins og þarf fyrir tvo fyrstu áfanga álversins í Helguvík. Á mörgum háhitasvæðum sem hafa verið virkjuð að hluta væri nú þegar hægt að auka nýtingu um nokkra tugi MW. Nái í framtíðinni djúpborunarverkefnið fram að ganga skapast síðar forsendur til enn frekari orkuöflunar á þeim svæðum. Þar með þarf orkufrekur atvinnurekstur ekki að spilla tækifærum til verndunar og anarrar nýtingar á þeim dýrmætu jarðhitasvæðum sem í dag eru óvirkjuð og sum hver enn óröskuð.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Arnarvatn á Sveifluhálsi. Ljósmynd/Olgeir Andrésson