Landsframleiðsla er hvergi minni en á Suðurnesjum
Landsframleiðsla er hvergi minni en á Suðurnesjum. Þar hangir efnahagurinn á nýbyggingum til að búa til veð fyrir veltunni til að dekka raunverulegt ástand sem er miklu verra undir niðri en menn þora að tala um. Það eru 1820 íbúðir í byggingu bara í Reykjanesbæ og leiguliðar í útgerð eru hvergi fleiri á landinu en á Suðurnesjum sem gefa ekkert í aðra hönd jákvætt fyrir þetta svæði.
Eina leiðin sem ég sé í dag til að ég geti snúið frá sannfæringu minni að við Suðurnesjamenn verðum að fá álver í Helguvík vegna yfirvofandi neyðar er sóknardagakerfi strax fyrir smábáta og minni dagróðrabáta. Tryggt verði í löggjöf á hinu háa Alþingi Íslendinga að sóknardagakerfi yrði svæðisskipt eftir landshlutum þar sem hver útgerðaraðili yrðu settar skorður allt að 12 sjómílur út með dagatakmörkunum og veiðafærastýringu. Stærri skip frystitogarar, nótaveiði-og flottrollflotinn gæti verið áfram í framseljanlegu lokuðu kerfi, sín á milli sem sáttarleið í þessu langvinna þrætumáli í þjóðfélaginu.
Þetta er eina leiðin að mínu mati til að hægt sé að ná raunverulegri sátt við LÍÚ, sem vill halda í kvótakerfið með öllum tiltækum ráðum, að það verði gerður sáttmáli um tvö ólík kerfi til framtíðar annað fyrir utan, allt frá 6 sjómílum, og hitt fyrir innan, allt að 12 sjómílum. Eitt er víst að málefni Suðurnesja þola enga bið. Það eru komnar svo margar viljayfirlýsingar svona rétt fyrir sveitar-og alþingiskosningar síðasta áratuginn, núna síðast um háskólaþorp á Keflavíkurflugvelli að fólk gerir bara grín að þessu sín á milli í dag!
Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ fyrrum lið-og miðstjórnarmaður Frjálslynda flokksins