Landhelgisgæslan er í gámaeiningum á bílastæði
Nýlegt minnisblað um flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnes sem unnið hefur verið fyrir innanríkisráðherra sýnir ótvírætt að flytja á gæsluna suður með sjó. Reyndar hefur þveröfug ályktun verið dregin af vinnu endurskoðunarfyrirtæksins en ég er mjög ósammála þeirri niðurstöðu og færi fyrir því eftirfarandi rök.
Í minnisblaðinu kemur fram að flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli er mátulega stórt fyrir núverandi flugflota; tvær þyrlur og eina flugvél. Skrifstofuaðstaða í flugskýlinu sé þó reyndar ekki góð enda sé hún í gámaeiningum á bílastæði og ekki í samræmi við öryggisstaðla. Þarfagreining hefur hins vegar sýnt að þörf er á fjórum þyrlum í stað tveggja sem nú eru í rekstri en núverandi skipulag á Reykjavíkurflugvelli leyfir ekki byggingarframkvæmdir svo ekki er hægt að stækka núverandi starfsaðstöðu auk þess sem ekki er ljóst hversu lengi Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er. Það er því ljóst að leysa verður þennan vanda ætli menn að fara eftir þarfagreiningunni. Kostnaður við þær óumflýjanlegu framkvæmdir er ekki tiltalinn í minnisblaðinu.
Samkvæmt mati Landhelgisgæslunnar, sem birt er í minnisblaðinu, er aðstaðan í Skógarhlíð fullnægjandi en aðstaða stjórnstöðvar nokkuð þröng og óhentugt að mörgu leyti. Að mati þeirra væri þó æskilegast að öll starfsemi væri á einum stað, þ.e. skrifstofa, stjórnstöð og lager o.s.frv. væri á flugvelli með flugrekstrar- og flugtæknideild. Fram kemur að með flutningi til Keflavíkurflugvallar fáist betri aðstaða fyrir flugdeild og öll starfsemin sé þá á sama stað. Ef flotinn verði stækkaður þá sé til staðar aðstaða fyrir hann allan.
Ávinningurinn af því að hafa alla starfsemina undir sama þaki er þó hvergi reiknaður út í minnisblaði innanríkisráðuneytis.
Þar er bent á að kostnaður muni aukast mikið vegna viðveruvakta með tilheyrandi aukningu starfsmanna þyrla og nauðsynlegrar þjálfunar þeirra. Til lengri tíma sé reyndar skynsamlegt að áhafnir séu með viðveruvakt og það tíðkist almennt hjá öðrum þjóðum en vegna kostnaðar og vöntunar á sérhæfðu starfsfólki þá hafi það ekki reynst mögulegt hjá Landhelgisgæslunni.
Þá er mikið gert úr kostnaði við breytingu á rafmagnslögnum flugskýlis 831 sem horft hefur verið til í þessu samhengi og hann talinn til þess kostnaðarauka sem yrði við flutninginn en ekkert horft til þess að þetta er breyting sem nauðsynlegt er að gera hvort eð er og þá af hálfu ríkisins. Flugskýlið er 12.200 fermetrar að stærð og þar af er gólfflötur skýlis um 4.000 fermetrar en önnur rými skiptast í skrifstofur, kennslu- og fundarsali, þjónusturými, geymslur og verkstæði. Mat Varnarmálastofnunar á árinu 2008 var að skýlið væri í góðu ástandi en að hefðbundin viðhaldsverkefni hefðu verið í bið. Komist er að þeirri niðurstöðu að leigukostnaður gæslunnar muni lækka við flutninginn, þrátt fyrir stærri aðstöðu, en sú tala er ekki reiknuð sérstaklega út. Þá er ríkið nú þegar að greiða rekstrarkostnað af ónýttu flugskýlinu sem myndi falla niður við flutning Landhelgisgæslunnar í húsið.
Mikið er gert úr auknum kostnaði vegna aksturs starfsmanna til og frá vinnu og ekkert ráð gert fyrir því að að aukinn starfsmannafjöldi gæti komið af Suðurnesjum eða þá að einhverjir núverandi starfsmanna myndu hugsanlega flytjast búferlum til að vera nær vinnu.
Stór hluti kostnaðar er svo til kominn vegna breytinga á hafnaraðstöðu í Njarðvíkurhöfn en það er ekki rökstudd hvers vegna þær breytingar eru nauðsynlegar.
Minnisblað innanríkisráðherra veitir ágætis mynd af núverandi stöðu Landhelgisgæslunnar en mjög erfitt er að draga þá ályktun af því að ekki sé skynsamlegt að ráðast í flutning gæslunnar. Kostnaðarmatið sem þar er borið fram er augljóslega mjög ófullkomið. Minnisblaðið sýnir að núverandi fyrirkomulag gengur ekki. Það sýnir að lausn er fyrir hendi sem hentar þeirri framtíðarsýn sem Landhelgisgæslan hefur sjálf mótað. Þegar horft er til framtíðarskipulags Landhelgisgæslunnar verða menn að horfa til næstu áratuga. Suðurnesin eru á miðju því stóra atvinnu- og íbúasvæði sem markast af Hvítánnum í vestri og austri og á eftir að fara ört stækkandi á næstu áratugum. Þess vegna þjónar það langtímahagsmunum okkar, bæði í fjárhagslegu og öryggislegu tilliti, að flytja Landhelgisgæsluna og Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð, í heild sinni á Suðurnes.
Róbert Marshall
formaður Allsherjarnefndar Alþingis