Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 16. desember 2002 kl. 10:23

Læknar skrifa Suðurnesjamönnum opið bréf

Það eru tvö mál sem við fyrrverandi heilsugæslulæknar við HSS lítum á sem aðalatriði í þróun mála við heilsugæslu HSS sl. vikur og hafa orðið þess valdandi að heilsugæslulæknar hafi ekki getað hugsað sér að hefja þar störf að nýju.Annars vegar er það umræða um akstur í vinnutíma, það er gefið er í skyn að hægt sé að fækka stöðugildum um 2 ½ með því að afnema það fyrirkomulag. Málið er ekki alveg svona einfalt. Vissulega hefur um klukkustund á hverjum virkum vinnudegi farið í akstur þar sem við búum utan Suðurnesja. Um það deilir enginn. Hins vegar hefur alveg verið horft fram hjá þeirri staðreynd að við sinnum gæsluvöktum við HSS. Það þýðir að eftir dagvinnu erum við á bakvöktum og erum kölluð út til að sinna verkefnum sem upp kunna að koma. Ef við byggjum á Suðurnesjum dveldum við á heimili okkar milli útkalla. Þar sem við erum á vinnustað á þessum bakvöktum þá höfum við sinnt pappírsvinnu milli verkefna. Þessari vinnu þarf að sinna, það þarf að fara í gegnum póst svo sem læknabréf, yfirfara rannsóknasvör, skrifa tilvísanir, skipuleggja uppvinnslu sjúklinga og svo framvegis. Þeir læknar sem hafa ekki tekið vaktir hafa líka unnið lengri vinnudag en við hinir þar sem þeim nýtist ekki tími á vöktum til þessarar vinnu. Af þessum sökum viljum við meina að við höfum sinnt okkar vinnuskyldu og stundum meiru til. Ef afköst okkar á heilsugæslu HSS eru borin saman við afköst annara heilsugæslustöðva á landinu þá kemur í ljós að afköst okkar eru ekki minni og í mörgum tilfellum meiri. Við höfum haldið uppi bráðavakt og tekið þar á móti ótakmörkuðum fjölda sjúklinga, vinnu sem hefur verið mjög erfið og skilið eftir mikla aukavinnu við pappíra á eftir. Þetta fyrirkomulag hafa t.d. heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu gefist upp á sökum þess álags sem af því hlýst.
Þetta snýst því um sveigjanlegan vinnutíma en ekki það að við höfum ekki skilað okkar vinnu. Þetta hefur stjórn HSS alfarið leitt hjá sér hvort sem það er með vilja eða af vanþekkingu.

Hitt aðalmálið sem tengist hinu fyrrnefnda er fyrirhuguð undirmönnun heilsugæslunnar sem var þó nokkur fyrir. Í viðræðum um endurráðningu var okkur sagt að 7-8 læknar ættu að duga til að sjá fyrir þörfum íbúa Suðurnesja fyrir heilsugæslu. Íbúar á Suðurnesjum eru um 17000. Ef miðað er við 8 lækna þýðir það að 2125 manns séu á hvern heilsugæslulækni. Almennt er miðað við að það séu í mesta lagi 1500 manns á bak við heimilislækni í þéttbýli en um 1000 manns í dreifbýli. Samkvæmt túlkun kjaranefndar eru Suðurnes skilgreind sem dreifbýli en jafnvel þó miðað við 1500 manns per heilsugæslulækni þá þarf að lágmarki 11-12 stöðugildi lækna við heilsugæslu á Suðurnes. Nú eru aðstæður þannig á Suðurnesjum að þar er ekki sjúkrahús með lyfjadeild og þar til heyrandi bráðamótttöku eins og almennt gerist á þéttbýlissvæðum. Það þýðir að þyngri tilfelli, til dæmis alvarlegir hjartasjúkdómar svo sem hjartaáföll og takttruflanir, lyfjaeitranir og hjartastopp sem annars færu beint á bráðamóttöku sjúkrahúss koma til lækna heilsugæslunnar. Þetta eru tímafrek verkefni sem auka mönnunarþörf. Ofan á þetta bætist svo að á Suðurnesjum er alþjóðaflugvöllur þar sem mikill fjöldi manna fer um á degi hverjum. Um íslenska flugumferðarsvæðið fara svo þúsundir ef ekki tugþúsundir manna á hverjum degi. Komi upp alvarlegir sjúkdómar hjá flugfarþegum þarf heilsugæslan á Suðurnesjum að sinna þeim. Á móti þessu til að minnka mönnunarþörf kemur að læknar sjúkrahússins sjá um slysamótttöku eins og tíðkast á þéttbýlisstöðum. Kvensjúkdómalæknar sinna mæðravernd ásamt ljósmæðrum og barnalæknir kemur að hluta ungbarnaeftirlits á heilsugæslunni. Sé tekið tillit til þessara þátta þá álítum við ekki óeðlilegt að það starfi 11-12 fastráðnir heilsugæslulæknar á Suðurnesjum. Á þeim stöðum sem eru sambærilegir eru stöðugildi heilsugæslulækna enda yfirleitt á þessu bili, 1000-1500 íbúar per heilsugæslulækni. Á hvaða forsendum á að bjóða Suðurnesjabúum eitthvað minna?

Áhrif undirmönnunar verða þau að enginn möguleiki verður á að mæta þörfum íbúa á Suðurnesjum fyrir heilsugæsluþjónustu. Undirmönnun gerir starf þar afar óspennandi og slítandi fyrir heilbrigðisstarsfólk sem svo aftur smitar út í starfsemina. Þetta mál er það sem skiptir sköpum í þeirri þungu ákvörðun okkar að ekki er grundvöllur til að koma aftur að störfum við HSS að gefnum þessum forsendum. Því fer fjarri að þetta sé barátta um hundraðkalla eins og nefnt hefur verið í sjónvarpi.

Gunnlaugur Sigurjónsson og Gunnar Þór Jónsson fyrrverandi heilsugæslulæknar við HSS

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024