Lækkar hlutfall skulda Reykjanesbæjar við að taka á sig skuldir Álftanes?
Enn gerast undur og stórmerki í bænum okkar, og reynt er að skrifa söguna upp á nýtt í von um að íbúar bæjarins séu með sama gullfiskaminni og þeir fiskar sem fulltrúar meirihlutans hittu á meðan þeir voru í kafi. Lítum á útskýringar bæjarstjórans sem birtust hér á vef Vikurfrétta í dag.
Útskýringar bæjarstjórans
„Háskólinn í Reykjavík og Álftanes höfðu lent í greiðsluerfiðleikum sem gerði félaginu erfitt um vik. Lausnin er fólgin í að losa HR, Álftanes og eignir fjármlálafyrirtækjanna eignir bankanna út úr félaginu. ..“
Eitthvað virðist hér gleymast. Lenti ekki Reyjanesbær einnig í greiðsluerfiðleikum og lækkaði húsaleigugreiðslur sínar til EFF umtalsvert. Hafði það engin áhrif á stöðu Fasteignar?
Skv samningsramma þeim sem kynntur hefur verið og bókun þeirri sem væntanlega mun verða samþykkt í bæjarráði á fimmtudag segir: „Fasteign mun einnig ganga frá uppgjöri við Álftanes og greiðir til Íslandsbanka það sem fæst greitt upp í eftirstöðvar veðskuldabréfsins (u.þ.b. 68%). Íslandsbanki mun aflétta veðböndum af þeim eignum sem Álftanes yfirtekur og lækka lánin í samræmi við verklagsreglur bankans um lán sem breytt er yfir í ISK. Þá munu Íslandsbanki og Fasteign gera með sér nýjan lánasamning um eftirstöðvar lánsins sem ekki hafa fengist greiddar.“
Þýðir þetta ekki á mannamáli að þau sveitarfélög sem eftir standa í Fasteign munu greiða það sem út af stendur af skuldum Álftanes? Íbúar í Reyjanesbæ þurfa að greiða skuldir Álftaness. Hvernig þjónar það hagsmunum Reykjanesbæjar að greiða þá skuld, eða lækkar skuldahlutfall bæjarins?
Framhaldið
Grein mín á vef Víkurfrétta í gær gekk í meginatriðum út á það að sýna fram á þann kostnað sem bæjarbúar í Reykjanesbæ þurfa að greiða samkvæmt samningsrammanum fyrir áframhaldandi veru í Fasteign sem lítinn eiginlegan tilgang virðist hafa . Sá kostnaður er 800 milljónir króna. Ég tel að það sé mikill ábyrgðarhluti að sýsla með fé almennings og að þeim peningum skuli varið á sem bestan hátt. Samfélaginu til hagsbóta en ekki til greiðslu óþarfa kostnað við gæluverkefni stjórnmálamanna. Fyrir 800 milljónir mætti til að mynda fjármagna byggingu 30 rúma hjúkrunarheimilis.
Það verður ekki betur séð að enn séu mörg atriði í samningsrammanum sem illa þjóna hagsmunum íbúum Reykjanesbæjar til framtíðar litið. Á það er ég að benda og um leið hvetja menn til að gæta þeirra varúðar sem nauðsynleg er.Það er ljóst að sú samninganefnd sem nú skilar samningsramma er skipuð af félagi sem lándrottnarnir eru aðilar og ramminn í takt við það. Er kannski réttara að sveitarfélögin skipi sína eigin samninganefnd þar sem hagsmunirnir er skýrari ? Kostnaðurinn sem af þessum samningsramma hlýst er of mikill fyrir þau sveitarfélög sem verst eru stödd. Um það ættu menn að geta verið sammála.
Að lokum
Hvernig sem á málið er litið og hvort sem bæjarstjórinn velur nú að draga fram nú fram þær 525 milljónir króna sem lagðar voru inn í Fasteign í upphafi er tapið af niðurfærslu hlutafjáreignarinnar nú um það bil 1600 milljónir. Framan í þá tölu virðast menn eiga erfitt með að horfa.
Með bestu kveðjum
Hannes Friðriksson