Krónan í frjálsu falli
Það eru gömul sannindi og ný að peningamálum þjóðarinnar hefur í gegnum tíðina verið hörmulega stjórnað. Fólkið í landinu er að kikna undan síhækkandi verðbólgu, verðtryggðum lánum, okurháum vöxtum sem vonlaust virðist vera að losna við með hefðbundnum blýantsnagandi aðferðum Seðlabankastjórnar. Er nema von að maður spyrji hvort þetta ástand sé komið til að vera um aldur og ævi.
Nýlegar fréttir af falli krónunnar hafa ekki bætt stöðuna og virkar sem olía á verðbólgubálið sem nóg var nú fyrir. Það er búið að taka Seðlabankann fjölda ára, svita og tár að reyna að koma verðbólgunni niður en hefur ekki tekist. Til að kóróna getuleysið hefur verðbólgan stigið stanslaust upp á við að viðbættum okurvöxtum. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð. Frá því að þjóðin fékk sjálfstæði '44 hefur fall krónunnar gagnvart dönsku krónunni verið um 1400%. Þetta er sá fórnarkostnaður sem fólkið í landinu hefur orðið að bera vegna slæmrar efnahagsstjórnunar, gengisfellinga, verðbólgu og ákvarðana misvitra pólitíkusa í peningamálum.
Það er krafa fólksins að þessu linni. Tökum upp viðræður við Efnahagsbandalag Evrópu um inngöngu, losum okkur við ónýtan gjaldmiðil og komum á stöðugleika með upptöku á evru. Er virkilega einhver sem trúir því að við getum staðið fyrir utan efnahagsbandalagið þegar til lengri tíma er litið? Er virkilega einhver í þessu landi sem sættir sig við núverandi ástand? Er virkilega einhver sem trúir því að framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar verði KRÓNAN? Losum okkur við ruglið, stefnum ákveðið og óhrædd að fullri aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu strax. Þá fyrst geta Íslendingar vænst þess öðlast þann stöðugleika í efnahagsmálum sem aðrar Evrópuþjóðir búa við í dag.
Sigurjón Gunnarsson
Norðurtúni 6
245 Sandgerði