Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Kristófer Örn Árnason – minning
  • Kristófer Örn Árnason – minning
Sunnudagur 17. ágúst 2014 kl. 09:00

Kristófer Örn Árnason – minning

Kristófer Örn Árnason fæddist á Landspítalanum 19. júlí 1996. Hann lést 19. júlí 2014. Útför Kristófers fór fram frá Fossvogskirkju 6. ágúst 2014.

„Sæll Kristófer, hvað segirðu, hvað er verið að bralla?“ „Allt gott, bara að chilla með Arnþóri frænda mínum.“ Þegar þeir voru saman virtist hann afslappaður og ánægður. En Kristófer var frá unga aldri með erfitt skap og ekki ánægður með hlutskipti sitt. Hann fann sig aldrei innan veggja grunnskólans. Við mótlæti, stríðni og erfiðleikum brást hann með reiði og neikvæðni. Hann virtist vera svo rifinn og tættur að innan alla tíð, eins og hann gat verið blíður og ljúfur drengur. Kristófer virtist vanta jarðtengingu, það var eins og hann gengi alltaf á marmarakúlum og öll orkan fór í að reyna að standa á fótunum. Eftir að pabbi hans ákvað að yfirgefa þennan heim sjálfur fengu tilfinningarnar reiði, hatur og neikvæðni mikið svigrúm. Skólagangan gekk öll úr skorðum, en skólakerfið virðist ekki hafa krafta né aðstöðu til að sinna þeim krökkum sem falla milli skips og bryggju. Samfélagið okkar leggur ekki mikla áherslu á að aðstoða krakka sem eru í svipaðri stöðu og hann var í. Í dag virðist neysla kannabisefna vera lítið mál hjá ungu fólki, engin lykt eins og af brennivíni (og foreldrar fatta ekkert). En þau sem eru viðkvæmari en ekki, með sálina rifna og tætta, sökkva mikið frekar í mótþróa og almennt neikvæða afstöðu til samfélagsins við neyslu á kannabisefnum. Kristófer var yndislegur drengur og eftir góða aðstoð á Lækjarbakka komst hann á Sel þar sem honum leið mjög vel, hann hændist að dýrum og kynntist því að bera ábyrgð á sjálfum sér og þeim verkum sem honum voru falin. Sagði hann við ömmu sína að þangað langaði hann að komast í sumar. Kristófer var vinamargur, hann var blátt áfram í samskiptum og sagði hiklaust sína skoðun á öðrum, hvíta lygi notaði hann ekki. Innan vinahópsins sé ég hann sem hrók alls fagnaðar, uppátækjasaman og til í allt. En hann var langrækinn og fyrirgaf engum sem gerðu á hans hlut eða komu illa fram við hann, enda fyrirgaf hann pabba sínum aldrei að hafa yfirgefið hann. Þó að lífið heimsæki okkur á misjafnan hátt og aðstæður okkar séu ólíkar þá ber hver og einn alfarið ábyrgð á gjörðum sínum og orðum, við þessi fullorðnu verðum að útskýra og leiðbeina þeim sem yngri eru. Mér fannst Kristófer vera frekar bjartsýnni og sáttari við sig en áður en það er oft hættulegasti tíminn hjá þeim sem passa ekki inn í ferkantað mót samfélagsins. Við sem samfélag verðum að gera betur við ungt fólk í vanda en þó að samfélagið nái ekki að hlúa að öllum, ber sá einn ábyrgðina á því að taka sitt eigið líf sem það gerir eins og Kristófer Örn. Núna geta þeir feðgarnir chillað saman eins og þeir gerðu svo oft.

Þú áttir þá gnótt til að gefa

aðeins guðirnir vissu‘ um það allt

og minningar sorgina sefa

en sýna hve gengið er valt.

Þó fjöldinn af vinum þér fylgdi

þú fannst enga samleið með þeim

um ólgusjó ævinnar sigldir

þú einmana á leiðinni heim.

(Rut Gunnarsdóttir)

Þín er sárt saknað.
Þinn frændi,
Ingvi Þór.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024