Kristján Pálsson sækist eftir að bjóða fram undir merkjum DD
Kristján Pálsson hefur, ásamt stuðningsmönnum sínum, ákveðið að senda inn umsókn til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins um að bjóða fram undir sérstöku DD framboði í nafni Sjálfstæðisflokksins. Kristján hefur stuðning stjórnar Njarðvíkings, félags Sjálfstæðismanna í Njarðvík. Kristján sagði í samtali við Víkurfréttir að hann teldi rétt og eðlilegt að kjósendur fengju að segja sitt álit á vinnubrögðum kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:„Ég hef ákveðið að senda inn ósk til miðstjórnar um að bjóða fram DD í nafni Sjálfstæðisflokksins. Ég tel það mjög eðlilegt að ég fái slíka heimild þar sem mjög miklar misfellur voru á störfum kjörnefnda við uppstillingu listans og mönnum augljóslega mismunað og bæði mér og stuðningsmönnum mínum misboðið. Ég tel eðlilegt að miðstjórnin skoði þessi beiðni af mikilli alvöru því hér verið að fjalla um alvarleg mál og miðstjórnin þarf að taka afstöðu til þess hvernig eigi að taka á þessum málum. Ég tel sjálfur mjög eðlilegt að kjósendur í kjördæminu fái að fella sinn dóm í þessu máli,“ sagði Kristján Pálsson í samtali við Víkurfréttir.